Ríkisstjórn Íslands ætlar að bæta rekstrarumhverfi ritstýrðra íslenskra fjölmiðla sem miðla fréttum, fréttatengdu efni og gegna mikilvægu samfélagslegu hlutverki. Áætlað framlag vegna þessa verður um 400 milljónir króna á ári. Lagafrumvarp er í smíðum og verður lagt fram í janúar næstkomandi. Áætlað er að endurgreiðslur hefjist á næsta ári, árið 2019. Þetta kom fram í kynningu sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hélt í dag.
Í aðgerðunum felst m.a. að endurgreiða hluta ritstjórnarkostnaðar rit- og ljósvakamiðla um 20-25 prósent og er áætlaður kostnaður vegna þeirra um 350 milljónir króna á ári. Ráðgert er að fyrsta endurgreiðslan komi til endurgreiðslu vegna rekstrarársins 2019.
Þá á að lækka virðisaukaskatt á rafrænar áskriftir sem á að skila um 40 milljón króna í árlegan ábata, samræma skattlagningu á auglýsingum svo íslenskir fjölmiðlar standi jafnfætis erlendum netmiðlum og með því að auka gagnsæi í opinberum auglýsingakaupum.
Þá verður opinber stuðningur við textun, táknmálstúlkun og talsetningu í myndmiðlum aukinn.
Dregið úr umsvifum RÚV
Þá á að draga úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði og skapa með því svigrúm fyrir aðra til að auka sínar tekjur. Alls er búist við því að umsvif RÚV á samkeppnismarkaði muni dragast saman um 560 milljónir króna á ári með því að kostun dagskrárliða verði hætt og með lækkun hámarksfjölda auglýsingamínútna úr átta í sex á klukkustund.
Í nýbirtu fjármálafrumvarpi fyrir árið 2019 kemur fram að framlag ríkissjóðs til fjölmiðlunar muni hækka um 534 milljónir króna á milli ára, eða um 12,8 prósent. Breytinguna má rekja til 175 milljón króna hækkunar á framlagi til RÚV vegna sjóðs sem ætlað er að kaupa efni frá sjálfstæðum framleiðendum hérlendis og 360 milljón króna hækkunar á framlagi til RÚV „í samræmi við tekjuáætlun um innheimtar tekjur af útvarpsgjaldi.“