Bjarni Már Júlíusson hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar. Þórður Ásmundsson hefur verið ráðinn til að gegna starfinu til bráðabirgða eftir að stjórn fyrirtækisins ákvað á fundi um miðjan dag í gær að binda enda á ráðningu fyrrverandi framkvæmdastjóra.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Starfslok fyrrverandi framkvæmdastjóra tengjast tilvikum þar sem framkoma hans gagnvart samstarfsfólki var óviðeigandi. Það er tekið alvarlega af stjórn Orku náttúrunnar, segir í tilkynningunni.
Starfið verður auglýst laust til umsóknar á næstunni. Þórður hefur starfað hjá Orku náttúrunnar frá stofnun, árið 2014, fyrst sem verkefnisstjóri og síðan sem forstöðumaður tækniþróunar.