Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði, segir í grein í Vísbendingu, sem kom til áskrifenda í gær, að almenningur á Íslandi hefði að meðaltali komið betur út úr bóluárunum og hruninu, heldur en fólk í flestum öðrum ríkjum. Þrátt fyrir það hafi margir komið illa út úr hremmingunum, einkum fólk sem var nýbúið að kaupa fasteignir þegar hrunið varð.
Ýmis sértæk atriði höfðu mikil áhrif á það að höggið mildaðist. „Á það var bent að almenningur hagnaðist á bólunni, fyrst með ódýru verði á innflutningi fyrir árið 2008, síðan með því að gengistryggð lán voru dæmd ólögleg og breytt í lágvaxta krónulán og að síðustu með skuldaleiðréttingu ríksstjórnarinnar sem fjármögnuð var með bankaskatti. Það verður samt að taka fram að þótt almenningur hafi að meðaltali hagnast á bólunni þá urðu margir illa úti sem höfðu keypt sér húsnæði skömmu fyrir hrun. Afleiðingar fjármálakreppunnar fyrir almenning á Íslandi voru mildari en í öðrum kreppuríkjum. Hér á landi mildaði velferðarkerfið höggið á almenning og ekki var gripið til niðurskurðar ríkisútgjalda sem bitnaði á velferð fólks í sama máli og í mörgum öðrum löndum. Litlar skuldir ríkisins í upphafi kreppu höfðu góð áhrif með því að auka svigrúm stjórnvalda í kreppunni. Einnig hjálpaði hagvöxtur sem hófst um sumarið 2010 til,“ segir Gylfi meðal annars í greininni.
Í henni fjallar hann um stöðu peningamála og rýnir í hvernig efnahagsmálin hafa þróast frá hruni fjármálakerfisins, dagana 7. til 9. október 2016.
Hér er hægt að gerast áskrifandi að Vísbendingu.