Gengi krónunnar hefur styrkst nokkuð gagnvart alþjóðlegum myntum í dag, en í vikunni hefur það sveiflast töluvert og má gera ráð fyrir að stærsta undirliggjandi ástæðan fyrir því sé gangurinn í fjármögnunartilraunum WOW Air flugfélagsins. Gengið hefur styrkst gagnvart evru og Bandaríkjadal, um tæplega 2 prósent í dag.
Sé mið tekið af því hvernig þróunin hefur verið í dag, þá virðist sem fjárfestar geri frekar ráð fyrir því að WOW Air takist að ná lágmarksstærð skuldabréfaútboðsins, en í Fréttablaðinu í dag kemur fram að fjárfestar séu nú þegar búnir að skrá sig fyrir 45 milljónum evra og unnið sé að því að loka gatinu sem miðast við 50 milljónir evra að lágmarki.
Þá er einnig gert ráð fyrir því að tugir milljónir evra komi inn í félagið sem nýtt hlutafé, að því er segir í Fréttablaðinu.
Á þriðjudaginn veiktist krónan gagnvart helstu alþjóðlegu myntum, og ákvað Seðlabankinn þá að hafa inngrip í markaðinn og stöðva veikinguna. Seðlabankinn seldi gjaldeyri fyrir 1,2 milljarða í þessum viðskiptum.
Markaðsvirði Icelandair hefur einnig fallið í dag, eða um 3,75 prósent það sem af er degi.