„Athugun á innihaldi þriðja orkupakkans styður ekki sjónarmið um að innleiðing hans fæli í sér slík frávik frá þverpólitískri stefnumörkun og réttarþróun á Íslandi að það kalli sérstaklega á endurskoðun EES-samningsins. Með innleiðingu hans væri ekki brotið blað í EES-samstarfinu.“
Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum greinargerðar Birgis Tjörva Péturssonar hrl. þar sem fjallað er um hinn svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Hann hefur valdið nokkrum deilum innan stjórnmálaflokka, og var meðal annars haldin fjölmennur fundur í Valhöll á dögunum, þar sem efasemdarmenn um þriðja orkupakkann komu saman, og komu þar fram sjónarmið um að með samþykkt hans væri grafið undan fullveldi landsins.
Greinargerðin var unnin að beiðni Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, iðnaðar-, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra.
Meginniðurstöður greinargerðarinnar eru þær, að þriðji orkupakkinn feli ekki í sér grundvallarbreytingar á EES-samstarfi Íslands.
„Reglur þriðja orkupakkans varða ekki á nokkurn hátt eignarrétt á orkuauðlindum á Íslandi,“ segir meðal annars í samantekt á niðurstöðum.
Þórdís Kolbrún segir í tilkynningu að hún hafi lagt sig fram við að hlusta eftir gagnrýnisröddum á mál sem snúa að þriðja orkupakkanum. Hún segir greinargerð Birgis Tjörva vera ítarlega og svara þeim helstu álitamálum sem hefur verið rætt um opinberlega.
„Þrátt fyrir að þetta mál hafi verið til meðferðar hjá stjórnvöldum í nokkur ár benti umræðan fyrr á árinu til þess að ýmsum spurningum hefði ekki verið nægilega vel svarað eða þeim svörum ekki verið komið nægilega vel á framfæri. Ég hef lagt mig fram við að hlusta á alla gagnrýni sem sett hefur verið fram á málið og leita svara við álitaefnum og spurningum. Greinargerðin er ítarleg, setur málið í gott heildarsamhengi og svarar að mínu mati vel helstu spurningum sem fram hafa komið. Þá sýnist mér hún vera í ágætu samræmi við það sem aðrir helstu sérfræðingar hafa sagt um málið. Ég nefni minnisblað Ólafs Jóhannesar Einarssonar lögmanns til ráðuneytisins í apríl síðastliðnum, framsögu Kristínar Haraldsdóttur forstöðumanns Auðlindaréttarstofnunar Háskólans í Reykjavík á ráðstefnu á vegum skólans nú í ágúst og nýlega grein Rögnu Árnadóttur aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar í Úlfljóti. Á grundvelli þess sem hefur komið fram um málið er ekki að sjá að innleiðing þess í íslensk lög fæli í sér meiriháttar frávik frá fyrri stefnumótun stjórnvalda í þessum málaflokki en almennt myndi ég telja að það þurfi afar sterk rök til að hafna með öllu upptöku ESB gerðar í EES samninginn sem talin er varða innri markaðinn. Það væri í fyrsta skipti frá upphafi sem við gerum það og ekki ljóst hvert það myndi leiða,“ segir Þórdís Kolbrún.