Vísitala íbúðaverðs lækkaði um 0,1 prósent í ágúst samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands og hefur nú hækkað um 4,1 prósent undanfarið ár, að því er fram kemur í samantekt Íbúðalánasjóðs.
Áfram hægir á verðhækkunum íbúða á höfuðborgarsvæðinu, en í júlí mældist árshækkun íbúðaverðs 5,2 prósent. Tólf mánaða hækkunartaktur íbúðaverðs nú er sá minnsti í rúmlega sjö ár eða frá því í maí 2011.
Verð á nýjum íbúðum á fasteignamarkaði er allt að 20 prósent dýrara en á eldri íbúðum, sé miðað við fermetraverð, og því má segja að innkoma nýrra íbúða á markað haldi lífi í hækkunartölum á fasteignamarkaði.
Verð fjölbýlis var óbreytt milli mánaða í ágúst en sérbýli lækkaði í verði um 0,3 prósent. Fjölbýli hefur hækkað um 3,2 prósent í verði á undanförnu ári en sérbýli um 6,0 prósent.