„Sú spurning kom fram hvað hefði orðið um þá þúsundir milljarða sem teknir voru að láni af íslensku bönkunum. Í ljós kom að ekki hefur verið gerð tilraun til þess að finna þessa peninga. Það sem liggur fyrir er að eigendur bankanna lánuðu sjálfum sér og eigin eignarhaldsfélögum óspart en ekki liggur fyrir hversu mikið af lánsfénu tapaðist í erlendum fjárfestingum og hversu miklu var komið undan í skattaskjól.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegri grein Gylfa Zoega, prófessors í hagfræði við Háskóla Íslands, í nýjustu útgáfu Vísbendingar.
Þar fjallar hann meðal annars um ráðstefnu sem fram fór í Háskóla Íslands 30. og 31. ágúst síðastliðinn. Þar var fjallað um þau tímamót að tíu ár eru nú frá hruni fjármálakerfisins á Íslandi og hápunkti hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu.
„Það sjónarmið kom fram að frjálst flæði fjármagns krefðist þess að stofnanir fjármálamarkaðar væru þroskaðar í þeim skilningi að eftirlit væri í lagi og spilling ekki mikil. Ef spillt lönd – spilling fæli þá í sér óeðlileg tengsl eftirlitsaðila, stjórnmála og fjármálaafla – eða lönd með veikar eftirlitsstofnanir opnuðu sig of snemma gagnvart umheiminum væri voðinn vís. Þannig væri unnt að réttlæta fjármálahöft í vanþróuðum ríkjum eins og t.d. Kína. Frjálst aðgengi að erlendu fjármagni fæli þá í sér hættu vegna þess að þeir misbrestir sem væru innan lands væru magnaðir upp þegar aðilar fá mun meira fjármagn undir hendur á erlendum mörkuðum en þeir gætu komist yfir innan lands. Þannig væru höft á flæði fjármagns það sem á ensku kallast „second best“ ef ekki er hægt að gera innlendar stofnanir og fjármálamarkaði virkari og uppræta spillingu.
Í þessu samhengi var þeirri spurningu varpað fram hvort hömlum á frelsi í fjármagnsflutningum hefði verið aflétt of snemma á Íslandi, að „dýrunum“ hafi verið sleppt of snemma út úr „búrinu“ eins og einhver orðaði það fyrir mörgum árum síðan,“ segir meðal annars í greininni.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.