Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins segjast hafa áhyggjur af þeirri vegferð sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sé í varðandi rekstur í heilbrigðiskerfinu. Þrír þeirra skrifuðu grein í Morgunblaðið um liðna helgi þar sem þeir lýstu þeir áhyggjum. Á meðal þeirra var Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari Sjálfstæðisflokksins. Það sem fer helst fyrir brjóstið á þingmönnunum er sú stefna Svandísar að auka starfsemi opinberrar heilbrigðisþjónustu en á sama tíma að draga úr framlagi sjálfstætt starfandi sérfræðinga og heilbrigðisstofnana sem reknar eru í einkarekstri og með hagnaðarsjónarmiði. „Það er að okkar mati röng stefna og nauðsynlegt er, áður en stór skef verða stigin, að fyrir liggi langtímaáætlun í heilbrigðismálum okkar.[...]Markmiðið á að vera að leita allra leiða til að bæta þjónustu við fólk og nýtingu fjármuna, í stað þess að leggja stein í götu einkareksturs í heilbrigðiskerfinu, sem sannarlega mun leiða til bættrar þjónustu, betri nýtingar fjármuna og styttingar biðlista – öllum til hagsbóta.“ Auk Áslaugar eru höfundar greinarinnar Jón Gunnarsson og Brynjar Níelsson.
Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag. Þar er haft eftir Brynjari að það sé mikilvægt fyrir flokkinn að árétta stefnu sína gagnvart kjósendum sínum. „Okkar kjósendur mega ekki halda að af því við þegjum þá séum við sammála ráðherranum. Við verðum að láta vita að við erum ekki sammála honum.“
Þingmenn Vinstri grænna hafa boðað framlagningu frumvarps sem hefur það markmið að tryggja að ráðherra semji ekki við fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem eru rekin í hagnaðarskyni. Í fréttum Stöðvar 2 á sunnudag sagði Ólafur Þór Gunnarsson, sem er á meðal þingmanna sem leggja fram frumvarpið, að það sé lagt fram vegna þess að það sé „ákveðið ákall í samfélaginu um það að heilbrigðisþjónusta verði ekki hagnaðardrifin og að það eigi ekki að nota peninga samfélagsins til að greiða út arð í fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu.“
Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, tjáði sig einnig um málið á Facebook-síðu sinni á sunnudag. Þar sagði hún að þegar hún og Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, hafi greitt atkvæði með vantrausti á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra á sínum tíma hafi Sjálfstæðismenn látið þau finna fyrir því í þingstörfum og sent frá sér yfirlýsingar um að þingmönnum stjórnarflokkanna hefði fækkað um tvo. Það hafi meðal annars Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, gert. „Hvað má þá kalla þingmennina þrjá sem skrifuðu Moggagrein í gær gegn heilbrigðisráðherra VG og leyfa sér að hjóla í ráðherra samstarfsflokks með tuddalegu orðalagi ? Þessir þrír þingmenn - og fjórði þingmaðurinn úr Sjálfstæðisflokki, Óli Björn Kárason, sem hefur gagnrýnt stefnu heilbrigðisráðherra VG með reglubundnum hætti í Morgunblaðið að undanförnu - samþykktu þetta stjórnarsamstarf við VG án nokkurra athugasemda...en vega nú að heilbrigðisráðherra VG með opinberum hætti,“ segir Rósa í stöðuuppfærslu sinni.
Þar segir hún enn fremur að ákall sé um það meðal þjóðarinnar að reisa við íslenska heilbrigðiskerfi. „Nú, þegar ríkissjóður hefur aldrei verið gildari, hlýtur betri, opinber grunn-heilbrigðisþjónusta fyrir alla; óháð efnahag, stétt eða stöðu að vera í algjörum forgangi. Síðan getum við rætt hvers konar fyrirkomulag við höfum þegar varðar einkarekna sérlæknaþjónustu í heilbrigðisþjónustu. En ekki fyrr en hitt er tryggt. Ef þingmennirnir þrír skilja það ekki, hefðu þeir betur átt að neita að samþykkja ríkisstjórnarsamstarf við VG - það hefði verið heiðarlegra.“
Ég er þarna ofurhress á svip í Silfrinu í dag ;-) Þegar við Andrés Ingi greiddum atkvæði með vantrausti á Sigríði...
Posted by Rósa Björk Brynjólfsdóttir on Sunday, September 16, 2018