Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkur landsins í nýrri skoðanakönnun MMR sem birt var í dag. Fylgi flokksins mælst 21,3 prósent. Það er umtalsvert minna en flokkurinn fékk í kosningunum fyrir tæpum ellefu mánuðum síðan þegar hann fékk 25,2 prósent.
Samfylkingin mælist næst stærsti flokkur landsins með 19,8 prósent fylgi. Það er 7,7 prósentustigum meira en flokkurinn fékk í kosningunum haustið 2017. Fylgi flokksins hefur því aukist um tæp 64 prósent á innan við ári, samkvæmt niðurstöðu könnunarinnar.
Stuðningur við ríkisstjórn heldur áfram að dragast saman
Ríkisstjórnarflokkarnir þrír mælast samtals með 40,5 prósenta fylgi og stuðningur við ríkisstjórnina mælist á svipuðum slóðum, eða 41,1 prósent. Þeir hafa allir tapað umtalsverðu fylgi frá síðustu kosningum samkvæmt könnun MMR.
Vinstri græn hafa tapað mestu, eða 5,8 prósentustigum. Flokkurinn mælist nú með 11,1 prósent fylgi og þriðjungur þeirra sem kusu hann í október 2017 myndu ekki gera það í dag. Framsóknarflokkurinn mælist með 8,1 prósent fylgi en fékk 10,7 prósent þegar talið var upp úr kössunum í fyrra.
Stuðningur við ríkisstjórnina hefur einnig dalað með hverri könnuninni sem gerð er. Um miðjan desember 2017 mældist hann 66,7 prósent hjá MMR en er nú, líkt og áður sagði, 41,1 prósent.
Þrír andstöðuflokkar bæta við sig
Af fimm flokkum stjórnarandstöðu mælast þrír með meira fylgi en í síðustu kosningum en tveir með minna. Samfylkingin hefur tekið mest til sín og myndi fá 19,8 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag. Píratar mælast með 13,2 prósent fylgi, sem er fjórum prósentustigum meira en þeir fengu haustið 2017, og Viðreisn mælist með 7,9 prósent fylgi, eða 1,2 prósentustigum meira en í síðustu kosningum. Samanlagt hafa þessir þrír flokkar bætt við sig 12,9 prósentustigum á síðustu tæpu ellefu mánuðum og myndu fá 40,9 prósent atkvæða ef kosið yrði nú, miðað við niðurstöðu MMR. Þeir eru því með meira samanlagt fylgi en ríkisstjórnarflokkarnir þrír.
Miðflokkurinn mælist í kjörfylgi, er nú með 10,8 prósent fylgi en fékk 10,9 prósent í fyrra. Flokkur fólksins dalar hins vegar frá kosningum og myndi nú fá 5,3 prósent í stað 6,9 prósenta.