Skuldabréfaútboði WOW air er lokið. Í tilkynningu kemur fram að stærð skuldabréfaflokksins nemi 60 milljónum evra, þar af 50 milljónir evra sem þegar hafa verið seldar og 10 milljónir evra sem verða seldar fjárfestum í framhaldi af útboðinu. Skuldabréfaflokkurinn er til þriggja ára og vextir eru níu prósent ofan á þriggja mána Euribor vexti, en þó aldrei lægri en níu prósent skyldu þeir vextir verða neikvæðir. Auk þess eru lagðar fram ábyrgðir sem eru ekki tilgreindar sérstaklega.
Þar segir enn fremur: „Pareto Securities hefur fyrir hönd WOW air umsjón með skuldabréfaútboðinu ásamt Arctica Finance. Bréfin verða gefin út með rafrænum hætti í Værdipapirsentralen ASA í Noregi og verða í kjölfarið skráð til viðskipta í Nasdaq kauphöllinni í Stokkhólmi. Þátttakendur voru bæði innlendir og erlendir fjárfestar.“
Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, segir að niðurstaðan sé mikil hvatning og þakkar fyrir þann góða stuðning sem félagið hafi fengið í „gegnum þetta ferli sem og öllum þeim sem tóku þátt í útboðinu.“
Sérstaklega er tekið fram í tilkynningu frá WOW air að engin viðtöl verði veitt að svo stöddu. Engar upplýsingar eru um hverjir keyptu þau skuldabréf sem þegar hafa verið seld.
Ætla að skrá sig á markað
Skúli fór í viðtal við Financial Times í gær þar sem hann sagði að WOW air ætlaði að safna um 200 til 300 milljónum dollara, eða 22 til 33 milljörðum íslenskra króna, í nýtt hlutafé í hlutafjárútboði sem fyrirtækið ætlar að ráðast í á næstu tveimur árum.
WOW air hefur ráðið Arion banka og Arctica Finance til að hefja undirbúning að skráningu hlutabréfa félagsins innan 12-18 mánaða, bæði hérlendis og erlendis. Arion banki er einnig á meðal kröfuhafa WOW air.