Formannaráð BSRB fordæmir í ályktun bónusgreiðslur til stjórnenda fyrirtækja og launakjör sem það segir í engu samræmi við raunveruleika íslensks launafólks.
Í ályktuninni segir enn fremur: „Eftir að tekið var á bónusgreiðslum og ofurlaunum í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 virðist nú allt vera að færast í sama farið þar sem fyrirtæki umbuna stjórnendum með kjörum sem ofbjóða launafólki.“
Formannaráðið skorar einnig á fulltrúa samtaka launafólks og samtaka atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóða að beita sér af fullum þunga gegn þessari þróun. „Lífeyrissjóðir landsmanna eiga ekki að fjárfesta í fyrirtækjum sem sýna af sér algert siðleysi með því að greiða stjórnendum sínum ofurlaun eða bónusgreiðslur sem almennir starfsmenn sömu fyrirtækja njóta ekki.“
Mikið launaskrið hefur verið hjá forstjórum skráðra félaga á undanförnum árum. Þeir 18 forstjórar sem stýra félögum sem skráð eru í íslensku kauphöllinni voru með 4,7 milljónir króna að meðaltalið í mánaðarlaun á árinu 2017. Það eru tæplega 16földlágmarkslaun, sem eru 300 þúsund krónur á mánuði.
Auk þess er í gildi kaupaukakerfi hjá mörgum þeirra félaga, þar sem æðstu stjórnendur geta fengið viðbótargreiðslur ofan á laun sín. Slíkar bónusgreiðslur geta verið í formi reiðufjár, sérstakrar lífeyrisgreiðslu eða með greiðslu hlutabréfatengdra réttinda sem eru utan fastra starfskjara starfsmanna.