Landsbankinn greiddi í gær 9,5 milljarða króna í sérstaka arðgreiðslu, en megnið af upphæðinni fer til íslenska ríkisins eða 99,7 prósent.
Bankinn hefur þar með greitt 24,8 milljarða króna í arð árinu 2018 og alls nema arðgreiðslur bankans um 131,7 milljörðum króna frá árinu 2013.
Tillaga bankaráðs um arðgreiðslur var samþykkt á aðalfundi bankans 21. mars á þessu ári. Annars vegar var um að ræða 15.366 milljóna króna arð vegna rekstrarársins 2017 og var sú greiðsla innt af hendi 28. mars sl. Hins vegar er um að ræða sérstakan arð til hluthafa að fjárhæð 9.4 milljarðar sem var á gjalddaga 19. september 2018.
Eigið fé Landsbankans var 232,1 milljarðar króna 30. júní sl. og eiginfjárhlutfallið var 24,1 prósent og hafði þá verið gert ráð fyrir áhrifum arðgreiðslna á árinu 2018.
Íslenska ríkið á verulega umfangsmikla eignahluti í fjármálakerfinu en Íslandsbanki er í eigu ríkisins að fullu. Eigið fé bankans nam um mitt þetta ár tæplega 170 milljörðum króna.