Flugfreyjum og flugþjónum í hlutastarfi hjá Icelandair hefur verið gert að velja á milli þess að fara í fulla vinnu frá og með 1. janúar næstkomandi ellegar missa vinnuna. Upplýsingar um þetta fengu flugfreyjur og flugþjónar í gær í tölvupósti, en töluverð reiði er meðal þess hóps sem þessi ákvörðun nær til.
Í tölvupóstinum segir jafnframt að breytt staða Icelandair kalli á breytingar. „Nú er útlit fyrir að fyrirtækið verði ekki rekið með hagnaði árið 2018 og er það grafalvarleg staða, enda byggja fyrirtæki framtíð sína á að geta fjárfest í uppbyggingu og þróun til að vaxa og dafna,“ segir í tölvupóstinum, sem Kjarninn hefur afrit af.
Í viðtali við Vísi segir formaður Flugfreyjufélagsins, Berglind Hafsteinsdóttir, að þessar aðgerðir séu gróft brot á kjarasamningi flugfreyja og því mikið áfall.
Icelandair sendi síðast frá sér afkomuviðvörun 27. ágúst síðastliðinn en samkvæmt uppfærðri afkomuspá mun afkoma ársins verða lægri en gert var ráð fyrir. Félagið áætlar að EBITDA (rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og skatta) ársins 2018 verði á bilinu 80-100 milljónir USD, eða sem nemur um ríflega 8,5 til 11 milljarða.
Ástæðan fyrir slakari afkomu er meðal annars töluvert lægri tekjur en upphaflega var áætlað, eða sem nemur 5 til 8 prósent lægri.
Í afkomutilkynningu félagsins eru þrjár ástæður einkum nefndar, fyrir verri afkomu en upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir.
„Í fyrsta lagi gerðum við enn ráð fyrir því við gerð seinustu afkomuspár að meðalfargjöld á seinustu mánuðum ársins myndu hækka, meðal annars í takt við kostnaðarhækkanir flugfélaga. Við teljum nú að þessar hækkanir muni skila sér síðar, þ.e. ekki fyrr en á árinu 2019.
Í öðru lagi hefur innleiðing breytinga sem gerðar voru í byrjun sumars 2017 á sölu- og markaðsstarfi félagsins ekki gengið nægilega vel fyrir sig auk þess sem gerðar voru breytingar á leiðarkerfi félagsins í byrjun þessa árs sem hafa valdið misvægi á milli framboðs fluga til Evrópu annars vegar og Norður-Ameríku hins vegar. Vegna þessa hafa spálíkön, sem meðal annars byggja á sögulegri þróun, ekki virkað sem skyldi og er uppfærð tekjuspá lægri en fyrri spá gerði ráð fyrir.
Það er mat okkar að lækkun farþegatekna Icelandair sem rekja megi til fyrrgreindra breytinga sé á bilinu 5-8% (50-80 milljónir USD) á ársgrundvelli. Eins og kom fram í upplýsingum sem félagið sendi frá sér í tengslum við birtingu uppgjörs á afkomu annars ársfjórðungs, hefur þegar verið gripið til aðgerða til að bregðast við þessari þróun. Þær aðgerðir eru farnar að skila árangri en við áætlum að það muni taka nokkra mánuði að sjá áhrif þeirra í afkomu félagsins. Við metum þessi neikvæðu áhrif á tekjur á þessu ári sem einskiptisliði,“ segir í tilkynningunni.
Markaðsvirði Icelandair er nú um 35 milljarðar króna en eigið félagsins var um mitt þetta ár 55 milljarðar króna. Hagnaður Icelandair á síðasta ári nam 3,9 milljörðum króna.