Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, segir að þær breytingar sem gerðar hafa verið á framkvæmd peningastefnunnar hafi reynst vel, en að verkinu sé ekki lokið ennþá. Styrkja þurfi þjóðhagsvarúðarstefnu Seðlabankans og þá þurfi að bæta miðlun upplýsinga, sérstaklega til almennings.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í fyrri grein Þórarins af tveimur í Vísbendingu, en sú fyrri birtist í tölublaðinu sem kom til áskrifenda í dag.
„Eins og fjallað er um í fyrri grein höfundar hafa verið gerðar töluverðar breytingar á umgjörð og framkvæmd peningastefnunnar hér á landi á undanförnum árum. Eins og rakið er hér að ofan hafa þessar breytingar leitt til verulega bætts árangurs peningastefnunnar á síðustu árum.
En verkinu er ekki lokið og meira þarf til. Meðal þess sem þarf að bæta er t.d. að styrkja umgjörð þjóðhagsvarúðarstefnu Seðlabankans. Þá þarf að bæta miðlun upplýsinga um peningastefnuna enn frekar, sérstaklega til almennings, og auka gagnsæi inngripastefnu bankans. Halda þarf áfram þróun þjóðhagsvarúðartækja bankans og mögulega þarf að endurskoða umgjörð fjárstreymistækis bankans.
Þótt ný umgjörð peningastefnunnar hafi skilað augljósum árangri má með rökum segja að enn bíði hennar að mæta alvarlegu áfalli – sérstaklega nú eftir að fjármagnshöft hafa að mestu verið losuð. Þau voru innleidd í fjármálakreppunni haustið 2008 og hjálpuðu án efa við að styðja við gengi krónunnar og skapa nauðsynlegt svigrúm við að endurskipuleggja innlenda efnahagsreikninga eftir fjármálakreppuna sem var grundvöllur þess að koma á stöðugleika í efnahagsmálum á ný í kjölfar fjármálaáfallsins,“ segir meðal annars í grein Þórarins.