Vextirnir sem WOW air greiðir af skuldabréfum sem fyrirtækið ætlar að gefa út eru þeir hæstu sem nokkurt flugfélag í Evrópu greiðir, samkvæmt frétt Bloomberg.
Þar kemur fram að vaxtakjörin í nýafstöðu skuldabréfaútboði WOW air, sem eru níu prósent ofan á þriggja mánaða Euribor vexti, séu hærri en vextir voru í útboðum hjá Air Berlin, Finnair,, Norwegian Air, Air France, British Airways og Lufthansa sem ráðist hefur verið í á tímabilinu 2013 til 2018.
Áður voru hæstu vextir sem evrópskt flugfélag hafði samþykkt að greiða 8,5 prósent í útboði sem Air Berlin fór í árið 2017 þegar fyrirtækið sótti 125 milljón evra með víkjandi skuldabréfaútgáfu. Air Berlin fór í greiðslustöðvun í ágúst í fyrra og hætti starfsemi 27. október 2017. Önnur flugfélög sem gáfu út skuldabréf á tímabilinu greiða, samkvæmt frétt Bloomberg, 5,1 til 7,9 prósent vexti.
Greint var frá því á þriðjudag að skuldabréfaútboði WOW air væri lokið. Bók þess hafði þá verið opin frá því í lok ágúst. Í tilkynningu kom fram að stærð skuldabréfaflokksins nemi 60 milljónum evra, þar af 50 milljónir evra sem þegar hafa verið seldar og 10 milljónir evra sem verða seldar fjárfestum í framhaldi af útboðinu.
Skuldabréfaflokkurinn er til þriggja ára og vextir eru, líkt og áður sagði, níu prósent ofan á þriggja mána Euribor vexti, en þó aldrei lægri en níu prósent skyldu þeir vextir verða neikvæðir. Auk þess voru lagðar fram ábyrgðir sem eru ekki tilgreindar sérstaklega.
Greint var frá því að þátttakendur væru bæði innlendir og erlendir fjárfestar en ekki hefur verið greint frá því hverjir þeir eru.
WOW air hefur ráðið Arion banka og Arctica Finance til að hefja undirbúning að skráningu hlutabréfa félagsins innan 12-18 mánaða, bæði hérlendis og erlendis. Arion banki er einnig á meðal kröfuhafa WOW air. Bankinn vill ekki upplýsa um hvort að hann sjálfur, eða sjóðstýringarfyrirtækið Stefnir, hafi tekið þátt í skuldabréfaútboðinu hjá WOW air.
Í viðtali við Financial Times sem birtist síðastliðinn mánudag sagði Skúli Mogensen að WOW air ætlaði að safna um 200 til 300 milljónum dollara, eða 22 til 33 milljörðum íslenskra króna, í nýtt hlutafé í hlutafjárútboði sem fyrirtækið ætlar að ráðast í á næstu tveimur árum.