Samkvæmt nýrri rannsókn, sem framkvæmd var á árunum 2017 til 2018, hefur aukin notkun staðla jákvæð áhrif á efnahagslega þróun á Norðurlöndum. Rannsóknin var gerð af norsku rannsóknarfyrirtæki, Menon, í samstarfi við Oxford Research og Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og náði til tæplega 1200 fyrirtækja á öllum Norðurlöndum. Þetta er í fyrsta sinn sem rannsókn á þýðingu staðla og efnahagslegum ávinningi af notkun þeirra er gerð á Norðurlöndum.
Í henni kemur fram að notkun staðla hafi stuðlað að 39 prósent framleiðniaukningu og 28 prósent aukningu landsframleiðslu á árunum 1976 til 2014. Á vefsíðu Staðlaráðs Íslands segir að útreikningar sýni að 0,7 prósent árleg framleiðniaukning meðal norrænna fyrirtækja sé til komin vegna staðlanotkunar.
Enn fremur segir að 73 prósent svarenda telji ávinning af notkun staðla meiri en kostnaðinn við innleiðingu þeirra og 85 prósent svarenda segi notkun staðla leiða til trausts og öryggis meðal viðskiptavina.
Starfrækt er sérstak Staðlaráð á Íslandi og samkvæmt vefsíðu ráðsins vinna sjö starfsmenn þar. Á síðunni segir jafnframt að staðall sé opinbert skjal ætlað til frjálsra afnota. Í staðli sé að finna reglur, leiðbeiningar eða skilgreiningar sem miða að því að tryggja tiltekna virkni, að hlutir passi og að þeir skili því sem af þeim er krafist. Samning staðla byggist á því að hagsmunaaðilar komi sér saman um hvað sé hæfilegt, eðlilegt, góðar starfsvenjur og í takt við tímann. Ákveðnar reglur séu viðhafðar um samningu og samþykkt staðla, sem og þátttöku við gerð þeirra.