Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands, segir stjórnendur Icelandair hafa ákveðið að virða að vettugi samningsbundið kjarasamningsákvæði um hlutastörf sem virt hafi verið af fyrirtækinu um áratugaskeið. Þetta kemur fram í Facebook-stöðuuppfæslu hennar í dag.
„Þetta ákvæði byggir á því að flugfreyjur og flugþjónar hafi þann kost að aðlaga einkalíf og fjölskylduábyrgð við starfið sitt. Með einhliða þvingunaraðgerðum hafa stjórnendur Icelandair ákveðið að grípa til hópuppsagna á flugfreyjum og flugþjónum sem starfa í hlutastörfum. Þessum aðgerðum er eingöngu beint að einum hóp innan fyrirtækisins sem að mestu leyti eru konur,“ segir hún.
Stjórn og trúnaðarráð Flugfreyjufélags Íslands fordæmdi á dögunum ákvörðun Icelandair að setja flugfreyjum og flugþjónum þá afarkosti að velja á milli þess að fara í fulla vinnu frá og með 1. janúar næstkomandi ellegar missa vinnuna og skoraði á Icelandair að endurskoða hana. Berglind sagði í samtali við Kjarnann þetta vera brot á reglum og kjarasamningum og aðför að áratugavinnu félagsins.
„Það var í kringum árið 1960 sem forverar mínir í Flugfreyjufélagi Íslands börðust fyrir því að flugfreyjur fengu að halda starfi sínu eftir 35 ára aldur. Það var á sama tíma og barnsburður og gifting jafngiltu uppsögn. Með samtakamætti tókst að fá þessu breytt.
En nú árið 2018 hafa stjórnendur Icelandair ákveðið að hverfa aftur til fyrri tíma. Þeir hafa ákveðið að virða að vettugi samningsbundið kjarasamningsákvæði um hlutastörf sem virt hefur verið af fyrirtækinu um áratugaskeið. Þetta ákvæði byggir á því að flugfreyjur og flugþjónar hafi þann kost að aðlaga einkalíf og fjölskylduábyrgð við starfið sitt. Með einhliða þvingunaraðgerðum hafa stjórnendur Icelandair ákveðið að grípa til hópuppsagna á flugfreyjum og flugþjónum sem starfa í hlutastörfum. Þessum aðgerðum er eingöngu beint að einum hóp innan fyrirtækisins sem að mestu leyti eru konur. Verið er að fara þvert gegn þeim sjónarmiðum sem uppi eru í landinu um fjölskylduvænt starfsumhverfi, styttingu vinnuviku og samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. Verið er að fara á skjön við jafnréttislög þar sem lagðar eru skyldur á atvinnurekenda að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu, meðal annars með auknum sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma,“ segir Berglind í stöðuuppfærslunni.
Hún spyr hvernig standi á því að árið 2018 skuli eitt fyrirtæki landsins standa í slíkum þvingunaraðgerðum og hvar fjölskyldustefna Icelandair sé.
„Hver er samfélagsleg ábyrgð Icelandair? Hver er starfsmannastefna Icelandair? Hvar er jafnréttisáætlun Icelandair?
Því spyr ég, erum við öll í sama liði?“ spyr hún.
Það er sorglegt að sitja árið 2018 og skrifa um aðför að kvennastétt. Það var í kringum árið 1960 sem forverar mínir í...
Posted by Berglind Hafsteinsdottir on Monday, September 24, 2018