Rekja má stóran hluta af tapi Íslandspósts til niðurgreiðslna fyrirtækisins á erlendum póstsendingum en kostnaðurinn hleypur á hundruðum milljóna.
Þetta segir Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, í viðtali við Morgunblaðið í dag en fyrirtækinu er skylt samkvæmt alþjóðasamningi (Universal Postal Union) að greiða 70-80% af kostnaði póstsendinga frá þróunarlöndum, þar á meðal Kína.
Ríkissjóður veitti Íslandspósti lán á dögunum til að mæta taprekstri fyrirtækisins. Í samtali við Morgunblaðið segir Ingimundur að það megi að rekja tapið að miklu leyti til fyrrnefndra niðurgreiðslna. Í tilkynningu vegna lánveitingarinnar, segir að þurfa einfaldlega að veita fyrirtækinu meira fé svo það geti haldið áfram rekstri. „Íslandspóstur þarf á fjármagni að halda til að viðhalda rekstrarfjármunum sem og til að styrkja lausafjárstöðu félagsins. Þrátt fyrir aukna lántöku undanfarin ár er þörf á meira lausafé, allt að 500 milljónum, til að standa undir skuldbindingum næstu mánuðina og fyrirsjáanlegum taprekstri á yfirstandandi ári, meðal annars vegna mikillar fækkunar bréfa, og hefur félagið leitað til ríkisins um fyrirgreiðslu vegna þess.“
Íslandspóstur er að fullu í eigu ríkisins og hefur félagið rekstrarleyfi frá Póst- og fjarskiptastofnun sem kveður á um að það fari með einkarétt ríkisins til að sinna póstþjónustu. Þar er átt við póstsendingar bréfa allt að 50 grömmum, auk þess sem félagið sinnir alþjónustu fyrir hönd ríkisins til að tryggja öllum landsmönnum aðgang að póstþjónustu með skilgreindum gæðum og á viðráðanlegu verði. Nær alþjónustuskyldan til sendinga allt að 20 kg. Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins segir að lánveitingin tryggi tímabundið möguleika félagsins til að standa undir þessum skyldum.