Donald Trump Bandaríkjaforseti mun á fimmtudaginn funda með Rod Rosenstein, aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna, en fjölmiðlar í Bandaríkjunum greindu frá því í dag að Rosenstein væri að íhuga að segja af sér.
Ástæðan sem fjallað hefur verið um, er sögð fjömiðlaumfjöllun New York Times á undanförnum dögum en þar var Rosenstein sagður hafa lagt það til við starfsfólk í Hvíta húsinu, og samstarfsfólk sitt, að Trump yrði tekinn upp leynilega, svo að fólk gæti heyrt hvað gengi á í Hvíta húsinu.
Deputy Attorney General Rod Rosenstein had expected to stay on through the midterms, sources say https://t.co/eY5cRsp3tG pic.twitter.com/dqmUshskX4
— CNN (@CNN) September 24, 2018
Er Rosenstein sagður hafa talað fyrir því að virkja 25. grein stjórnarskrárinnar til að koma Trump úr embætti forseta á grundvelli þess að hann sé ekki hæfur til að gegna embættinu.
Vefurinn Axios greindi frá því í dag, að Rosenstein ætlaði sér að hætta sem ráðherra, áður en Trump myndi sjálfur hafa frumkvæðið að því að hann yrði rekinn úr embætti.
Trump hefur átt í miklum útistöðum við dómsmálaráðuneytið og hefur meðal annars gagnrýnt ráðherrann, Jeff Sessions, opinberlega og sagt hann vanhæfan í starfi. Þá hefur hann einnig beint spjótunum að Rosenstein og sagt að hann ætti að beita sér fyrir því að Rússarannsókninni svonefndu, sem Robert Mueller stýrir, verði hætt.
Í umfjöllun New York Times er frá því greint, að Rosenstein hafi sagt sínum samstarfsmönnum, að hann telji að Trump ætli sér að reka hann úr embætti.