Samkvæmt nýframlögðu frumvarpi til laga um breytingar á veiðigjöldum í sjávarútvegi er lagt upp með að afkomutengingin í gjaldheimtunni verði færð nær í tíma heldur en nú er.
Þannig verða rekstrargögnin sem liggja til grundvallar gjaldheimtunni eins árs gömul í stað tveggja ára eins og verið hefur undanfarin ár.
Með þessu er stefnt að því að gjaldheimtan verði skynsamlegri bæði fyrir atvinnuveginn sem heild, sem og stjórnvöld og almenning. Með fyrrnefndum breytingum verður gjaldheimtan tengdari því sveiflukennda umhverfi sem oft einkennir íslenskt efnahagslíf.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í frumvarpi sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lagt fram á þingi, og nú er verið að kynna á blaðamannafundi.
Ein breytingin sem gerð verður felst í því að afleggja veiðigjaldanefnd og færa gjaldheimtuna til Ríkisskattstjóra, sem mun sjá um útreikning á veiðigjöldunum. Sú breyting á að skila sér í sterkari stjórnsýslu í kringum innheimtuna og áreiðanlegri gögnum en gögn frá Hagstofu Íslands, aftur í tímann, hafa veitt sem grunn að útreikning veiðigjalda.