Athugasemdir voru gerðar við ýmislegt í innri starfsemi og stjórnun Samgöngustofu, í áfangaskýrslu sem starfshópur skilaði til samgönguráðherra í október í fyrra. Meðal þess sem hópurinn taldi gagnrýnivert voru samskipti milli Samgöngustofu og ISAVIA sem voru sögðu ófagleg og ekki nægilega formleg.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Jón Gunnarsson, þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, setti í mars 2017 á stofn starfshóp sem átti að vinna greiningu á verkefnum Samgöngustofu. Í hópnum voru Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður, formaður hópsins, og Bergþóra Halldórsdóttir hdl. og Hreinn Loftsson hrl.
Samgöngustofa hefur meðal annars eftirlit með flugrekstri á sinni könnu og útgáfu flugrekstrarleyfa.
Tveir starfsmenn samgönguráðuneytisins unnu með hópnum. Sigurður Kári segir í samtali við Morgunblaðið að þetta hafi verið ítarleg yfirferð og hafi verið tekin viðtöl við á að giska 80 aðila, sem lögðu ýmislegt til málanna. „Í kjölfar þessa hefur ráðuneytið ekki óskað eftir því að starfshópurinn leggi af mörkum frekari vinnu og þar við situr,“ segir Sigurður Kári í viðtali við Morgunblaðið.