Aflaheimildir Ögurvíkur, samtals 7.680 tonn í botnfisktegundum og 1.663 tonn í makríl, eða sem nemur um 1,3 prósent af heildinni, eru metnar á 14,5 milljarða króna.
Þetta kemur fram í kynningu á Ögurvík sem birt var á vef kauphallar Íslands í dag. HB Grandi er eina útgerðarfyrirtækið á Íslandi sem skráð er á markað, en markaðsvirði þess nemur nú 57,4 milljörðum króna.
Brim hf., nú Útgerðarfélag Reykjavíkur, er stærsti eigandi HB Granda með ríflega þriðjungshlut, en það félag er jafnframt seljandi Ögurvíkur. Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda, er stærsti eigandi Útgerðarfélags Reykjavíkur. Félagið seldi á dögunum þriðjungshlut sinn í Vinnslustöðinni fyrir 9,4 milljarða króna til FISK Seafood, útgerðarhluta Kaupfélags Skagfirðinga.
Stjórn HB Granda hefur þegar samþykkt kaup félagsins á Ögurvík, fyrir 12,3 milljarða króna. Viðskiptin eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins og einni háð samþykki hluthafafundar.
Kaupin verða fjármögnuð með eigin fé og lánsfjármagni, núverandi vaxtakjör sambankaláns eru EURIBOR + 1,95%, að því er fram kemur í kynningunni á Ögurvík. Viðmiðunargengið í viðskiptunum er 124,9 krónur fyrir evruna, en evran kostar nú 129 krónur.
Ögurvík gerir út togarann Vigra RE en virði skipsins samkvæmt verðmatinu er 1,7 milljarður króna.
Eigið fé HB Granda nam um 250,5 milljónum evra um mitt þetta ár, eða sem nemur um 32 milljörðum króna.
Stærstu eigendur HB Granda, fyrir utan Brim hf., nú Útgerðarfélag Reykjavíkur, eru íslenskir lífeyrissjóðir. Næst stærsti eigandi félagsins er Lífeyrissjóður verslunarmanna með 13,6 prósent hlut. Virði félagsins hefur dregist saman um 7,7 prósent á undanförnum 12 mánuðum á markaði.