Lögð hefur verið fram þingsályktunartillaga á Alþingi sem ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að beita sér fyrir því að mánaðartekjur einstaklinga undir 300.000 krónum verði undanþegnar skattgreiðslum og gera með laga og reglusetningu viðeigandi ráðstafanir í því efni fyrir árslok 2018.
Flutningsmenn tillögunnar eru úr Flokki fólksins og Miðflokknum, þau Ólafur Ísleifsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Inga Sæland og Karl Gauti Hjaltason.
Þingsályktunartillagan felur í sér að fjármála- og efnahagsráðherra er falið að gera tímasetta áætlun um að tekjur einstaklinga undir 300.000 krónum verði undanþegnar skatti. Þau skattfrelsismörk samsvara 106.387 króna persónufrádrætti. Um tvöföldun skattleysismarka er að ræða. Forsendur útreikninga eru í skýrslu Hauks Arnþórssonar.
Vilja jafna skattbyrði milli tekjuhópa
Í greinargerð tillögunnar eru markmiðin sögð tvö. Annars vegar að jafna skattbyrði milli tekjuhópa þannig að þátttaka ríkra og fátækra í rekstri samfélagsins verði líkari því sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum og hins vegar að hlífa þeim sem eru með tekjur undir framfærslumörkum við að greiða samfélaginu skatta af þeim tekjum.
„Tillagan stuðlar að tilfærslu fjár innan skattkerfisins sem kemur fram í lægri skattheimtu hjá tekjulágu fólki og hærri hjá þeim sem hafa háar tekjur. Með tillögunni er undið ofan af langvarandi þróun þar sem skattbyrði hefur flust frá tekjuháum til tekjulágra,“ segir í greinargerðinni.
Auknar ráðstöfunartekjur 54 milljarðar króna
Kostnaður ríkissjóðs vegna breytinga á tekjuskatti yrði lítill, samkvæmt tillögunni. Að mestu leyti yrði um tilfærslu milli tekjuhópa að ræða en flutningur skattbyrði af tekjuskatti frá hærra launuðum til þeirra lægra launaðra yrði um 22 milljarðar króna.
Hins vegar yrði kostnaðarauki sveitarfélaga nálægt 31,4 milljörðum króna. Auknar ráðstöfunartekjur láglaunafólks yrðu allt að 54 milljarðar króna árlega. Segir í greinargerðinni að til greina kæmi að ríkið tæki á sig meira eða minna af kostnaði við þessa skattbreytingu. En ef stefnt væri að því að skattar hækki ekki í krónutölu hjá neinum skattgreiðanda þá gæti kostnaður af breytingunni orðið há upphæð.
„Skipting persónufrádráttarins milli aðila gerir það að verkum að einvörðungu er greitt útsvar af tekjubilinu 152 til 250 þúsund krónur, samtals um 13 milljarðar króna á árinu 2017 og á tekjubilinu 250 til 300 þúsund króna taka sveitarfélögin aðra 13 milljarða króna, meðan ríkissjóður tekur 3,5 milljarða króna í tekjuskatt á því tekjubili. Þetta er athyglisvert af því að sveitarfélögin gætu endurgreitt skattgreiðendum með lágar tekjur útsvarið og gæti ríkið ekki skattlagt þær sömu tekjur ef um endurgreiðslu væri að ræða,“ segir í greinargerðinni.