Miðsvæðis í Reykjavík leigist tveggja herbergja íbúð á um 190.000 kr. á mánuði að meðaltali. Hvergi á Norðurlöndunum er að finna jafn hátt leiguverð í höfuðborginni og hér á landi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Leigumarkaðsdeild Íbúðalánasjóðs um íbúðar- og leiguverð í höfuðborgum Norðurlandanna.
Samkvæmt skýrsluhöfundum er leigumarkaðurinn á Íslandi að mörgu leyti ólíkur því sem þekkist í nágrannalöndunum.
„Þótt leigumarkaðurinn hér á landi hafi stækkað að undanförnu er hann ennþá hlutfallslega lítill í alþjóðlegu samhengi og að mörgu leyti óþroskaður.
Regluverk hans og umgjörð er til að mynda önnur hér en á hinum Norðurlöndunum. Aðilum sem eiga í leigusambandi hér á landi er frjálst að semja um lengd samnings og eins hver leigufjárhæðin skuli vera og hvort og með hvaða hætti hún skuli taka breytingum á leigutíma,“ segir í skýrslunni.
Leiguverð hæst bæði í miðborg og utan hennar
Í skýrslunni kemur fram að leiguverðið er hæst í Reykjavík, bæði í miðborg og utan miðborgarinnar, hvort sem horft er til tveggja eða fjögurra herbergja íbúða.
Miðsvæðis í Reykjavík er leiga fyrir tveggja herbergja íbúð um 188.000 krónur á mánuði. Á eftir Reykjavík er leiguverð tveggja herbergja íbúðar miðsvæðis hæst í Kaupmannahöfn eða um 164.000 íslenskar krónur á mánuði að meðaltali. Lægst er leiga slíkrar íbúðar í Þórshöfn á um 110.000 krónur á mánuði.
Það sama á við um tveggja herbergja íbúðir utan miðborgar. Þar er leiguverðið hæst í Reykjavík, eða rúmlega 150.000 krónur, en á eftir Reykjavík er hæsta leiguverð slíkrar íbúðar í Osló þar sem það er um 122.000 krónur.
Fjögurra herbergja íbúðir eru einnig dýrastar í Reykjavík, hvort sem horft er til meðalíbúðar í miðborginni eða utan miðborgar. Í miðborginni leigist slík íbúð á tæplega 300.000 krónur á mánuði. Á eftir Reykjavík er leiguverð fjögurra herbergja íbúðar hæst í miðborg Kaupmannahafnar eða á tæplega 290.000 krónur.
„Hátt leiguverð en hlutfallslega lágt húsnæðisverð kann að vera skýringin á háu hlutfalli ungs fólks í foreldrahúsum, en hvergi á Norðurlöndunum er hlutfallið jafn hátt og hér á landi,“ segir í skýrslunni. Um 14 prósent fólks á aldrinum 25 til 34 ára hér á landi býr í foreldrahúsum á meðan hlutfallið er innan við 6 prósent víðast hvar annars staðar á Norðurlöndunum.
Hátt leiguverð gerir leigjendum erfitt fyrir að safna
Í skýrslunni kemur jafnframt fram að íbúðaverð í Reykjavík sé lágt í hlutfalli við tekjur miðað við höfuðborgir annarra landa. Hlutfallslega lágt húsnæðisverð á móti háu leiguverði geri það að verkum að hagstæðara er fyrir fólk að kaupa. Á móti þessu kemur að hátt leiguverð geri leigjendum erfiðara fyrir að safna sér upp í þá útborgun sem þarf fyrir íbúð.
Sé íbúðaverð í Reykjavík borið saman við íbúðaverð í höfuðborgum nágrannalandanna sést að það sker sig úr en aðeins í Þórshöfn er íbúðaverð lægra en í Reykjavík, samkvæmt skýrslunni.
Hæst er kaupverð íbúða í miðborg Stokkhólms en þar selst fermetrinn á yfir 1,1 milljón íslenskra króna. Fermetraverð utan miðborgar Stokkhólms er lægra eða um 663.000 krónur. Á eftir Stokkhólmi mælist verðið hæst í Osló en þar er verð á hvern fermetra í miðborginni örlítið lægra en í miðborg Stokkhólms eða um 960.000 krónur.
Lægsta fermetraverðið er að finna í Þórshöfn en þar seljast íbúðir miðsvæðis á tæplega 359.000 krónur á hvern fermetra en 263.000 krónur utan þess.