Greiningardeild Arion banka gerir ráð fyrir lítilli fjölgun ferðamanna til landsins á næstu árum. Þetta kemur fram í ferðaþjónustuskýrslu bankans sem kynnt var í morgun.
Þannig er gert ráð fyrir 1,4 prósenta fjölgun ferðamanna á næsta ári og 2,4 prósent árið 2020. Spá bankans er sögð mikilli óvissu háð að áhættan sé meiri niður á við. „Sem dæmi, ef vöxtur hlutfalls skiptifarþega heldur áfram í svipuðum takti og á þessu ári gæti ferðamönnum fækkað á næsta ári. Þá getur vaxandi spenna í alþjóðaviðskiptum hægt á vexti farþegaflutninga á heimsvísu, þróun sem skiptir verulegu máli fyrir Ísland.“
Bankinn segir flugfargjöld einfaldlega of ódýr og að horfur séu á að íslensku flugfélögin borgi með hverjum farþega á þessu ári, þróun sem ekki gangi til lengdar. Fargjöldin hafi ekki fylgt eldsneytisverði eftir að það tók að hækka árið 2016.
Fjölgun hótelherbergja ekki haldið í við fjölgun ferðamanna
Í skýrslunni segir að fjölgun hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki haldið í við fjölgun erlendra ferðamanna hingað til lands. Samhliða því hafi meðaldvalartími á hótelum á höfuðborgarsvæðinu styst verulega og nýting rokið upp. „Í erlendum samanburði eru nýtingarhlutföll og verð afar há. Engu að síður hefur rekstur hótela þyngst og vísbendingar um að sú þróun muni halda áfram á þessu ári.“ Þannig hafi fjölgun ferðamanna umfram framboðsaukningu á hótelum skapað grundvöll fyrir Airbnb að sækja til sín markaðshlutdeild. En nýjustu tölur bendi til þess að umsvif Airbnb séu þó að dragast saman og fækkaði Airbnb gistinóttum verulega yfir sumarmánuðina.
Útlit er fyrir að sterk króna og hátt verðlag hafi ekki stytt dvalartíma ferðamanna jafn mikið og áður var talið, þar sem ferðamenn hafa sótt í auknum mæli í ódýrari gistikosti, sem sagt Airbnb. Neysla á hvern ferðamann í krónum hefur aftur á móti dregist saman en haldið nokkurn veginn velli í erlendri mynt. Þróunin er mismunandi eftir þjóðernum og eru sum þjóðerni viðkvæmari en önnur.