Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segist gera sér grein fyrir því að það verði alltaf einhverjir ósáttir við samgönguáætlun og vilji meira fjármagn til nýframkvæmda. Hann telur þó að mikilvægum áföngum verði náð á næstu árum.
Þetta kom fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, við Sigurð Inga í þættinum 21 á Hringbraut sem frumsýndur var í gærkvöldi.
Sigurður Ingi minnti einnig á starfshóp sem sé að störfum sem hefur það hlutverk að skoða gjaldtöku í vegakerfinu. Það séu verkefni í samgönguáætlun sem eru kannski ekki fyrirhuguð á allra næstu árum sem hægt væri að taka út úr henni og framkvæma með gjaldtöku.
Ráðherrann ræddi einnig þá stöðu sem breyting á bílaflota þjóðarinnar mun skapa varðandi tekjuöflun ríkisins til samgönguverkefna.
Í þættinum ræðir Sigurður Ingi einnig ítarlega um aðra þætti samgönguáætlunar, borgarlínu og framtíðaráform um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu, stöðu flugfélaganna á Íslandi, þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki og ríkisstjórnarsamstarfið.