Heildarvirði þorskkvótans í landinu er um 416 milljarðar króna, samkvæmt því viðmiði sem miðað er við í verðmati á aflaheimildum Ögurvíkur, vegna fyrirhugaðra kaupa HB Granda á félaginu.
Í þeim útreikningum er miðað við að kílóverðið á þorskígildi sé um 2000, en algengt upplausnarvirði á aflaheimildum er töluvert hærra, eða nærri 3000. Sé mið tekið af því er virði aflaheimildia í þorski 624,7 milljarðar króna.
Ögurvík býr yfir um 1,3 prósent af heildaraflaheimildum makríls og er virði þeirra, miðað við 2000 á kíló, um 730 milljónir króna, en sé miðað við 3000 á kíló þorskígildis á nemur virðið tæplega 1,1 milljarði króna.
Aflaheimildir í makríl hafa þó ekki verið varanlega kvótasettar, heldur úthlutað árlega á grundvelli veiðireynslu, en verðmætin eru engu að síður mikil. Sé miðað við fyrrnefnt verðmat á aflaheimildum Ögurvíkur er heildarvirði makrílkvótans í landinu um 57 milljarðar, miðað við 2000 á kíló þorskígildis, en 84,4 milljarðar miðað við 3000 á kíló.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans í gær, þá er virði aflaheimilda Ögurvíkur, sem gerir út togarann Vigra RE, áætlað 14,5 milljarðar króna, í verðmati á félaginu í tengslum kaup HB Granda á því.
Seljandi er Brim hf., nú Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem er í meirihlutaeigu Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra HB Granda. Brim er jafnframt stærsti eigandi HB Granda með rúmlega 37 prósent hlut.
Viðskiptin, upp á 12,3 milljarða króna, hafa verið samþykkt í stjórn félagsins en hluthafafundur þarf að samþykkja, og hefur verið boðað til hans 16. október næstkomandi. Þá eru viðskiptin einnig háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Fyrirhugað er að kaupa Ögurvík með lánsfé og eigin fé, samkvæmt kynningu á viðskiptunum, sem birt var á vef kauphallarinnar í gær.
Ljóst er að kaupin eru töluvert stór biti fyrir HB Granda, en Guðmundur vill stækka félagið og efla, og telur að með kaupunum geti náðst fram stærðarhagkvæmni og skilvirkari starfsemi með Reykjavík sem helstu heimahöfn.
Samkvæmt heimildum Kjarnans hafa stórir hluthafar, lífeyrissjóðir þar helst, ekki gert upp hug sinn enn, og mun það ekki skýrast fyrr en á hluthafafundinum, hvort af þessum viðskiptum verður.
Handhafar um 90 prósent af því hlutafé sem eftir stóð, þegar Brim hf. keypti rúmlega þriðjung í HB Granda, skrifuðu undir samkomulag um að selja ekki hlutinn þegar yfirtökuskyldan virkjaðist. Tilboðið gerði ráð fyrir verðmiða á HB Granda upp á 65 milljarða króna, en markaðsvirði félagsins hefur lækkað nokkuð að undanförnu og er nú um 57 milljarðar.