Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að stjórnarsamstarfið gangi vel, þótt það sé mjög óvenjulegt. „Að einhverju leyti finnst mörgum hérlendis of mikið gert úr því hversu óvenjulegt það er. En það er það óvenjulegt að núna í samskiptum við erlenda kollega mína þá spyrja þeir bara hvernig er þetta hægt?“
Þetta kom fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, við Sigurð Inga í þættinum 21 á Hringbraut sem frumsýndur var í gærkvöldi.
Sitjandi ríkisstjórn samanstendur af Vinstri grænum, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki og teygir sig því frá vinstri ás stjórnmálanna, yfir miðjuna og til þess flokks sem skilgreinir sig lengst til hægri. Aldrei áður hefur verið mynduð sambærileg ríkisstjórn hérlendis og Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkur hafa lengst af skilgreint sig sem algjörar andstæður í stjórnmálum. Ríkisstjórnin var mynduð eftir kosningar þar sem átta stjórnmálaflokkar náðu inn á þing og engin sýnileg ríkisstjórn eftir hefðbundnu mynstri var í kortunum.
Sambærileg staða er uppi í Svíþjóð, þar sem rauðgræna blokkin fékk 144 þingmenn og bandalag mið- og hægriflokka 143. Svíþjóðardemókratar, sem flokkar innan beggja blokka þvertóku fyrir að vinna með fyrir kosningar, fengu 62 þingsæti. Því er uppi sú staða að annað hvort þarf önnur blokkin að sækjast eftir stuðningi Svíþjóðardemókrata þvert á yfirlýsingar fyrir kosningar, eða þær þurfa að brjóta sig upp og finna nýjar leiðir til að mynda stjórn.
Sigurður Ingi segist hafa heyrt á kollegum sínum í Svíþjóð, vegna þeirrar stöðu sem upp var komin eftir síðustu kosningar. Þeir segi: „Við erum í tómum vandræðum hér í Svíþjóð. Kannski ættum við að horfa á íslenska módelið.“
Þótt að ríkisstjórnarsamstarfið sé óvenjulegt telur Sigurður að það sé býsna gott. Auðvitað komi upp mál sem þurfi að finna lausnir á og gera málamiðlanir. Honum finnst þó ganga vel að takast á við þau. „Ég er bjartsýnn á það loforð sem ég gaf mörgum kjósendum að ef ég færi í ríkisstjórn þá myndi hún halda út kjörtímabilið.“
Í þættinum ræðir Sigurður Ingi einnig ítarlega um samgönguáætlun, stöðu flugfélaganna á Íslandi, þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki og stjórnmál almennt.