Christine Blasey Ford, doktor í sálfræði og prófessor við University of Palo Alto og Stanford í Kaliforníu, segir Brett M. Kavanaugh, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur þegar útnefnt sem dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna, hafa brotið gegn sér kynferðislega þegar þau voru á menntaskólaaldri.
Hún greindi sálfræðingi sínum frá atvikinu árið 2012 og manni sínum einnig. Hún segist ekki hafa getað rætt um atvikið árum saman eftir að það kom upp, og sagði frammi fyrir þingnefnd í dag að hún væri 100 prósent viss um að það hefði verið Brett Kavanaugh sem braut gegn henni.
Ford sakar Kavanaugh um að hafa reynt að afklæða hana, að hafa haldið henni fanginni ásamt öðrum manni, og káfað á henni þegar hún var 15 ára og hann 17 ára, árið 1982.
Í kjölfar þess að Ford greindi frá reynslu sinni eftir að tilkynnt var að hann kæmi til greina sem dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna hafa tvær konur til viðbótar stigið fram.
Ford sagði atvikið hafa markað líf sitt, og haft mikil andleg og líkamleg áhrif á hana. Hún muni enn hlátur þeirra sem brutu gegn henni, og það sitji fast í minningu hennar.
Kavanaugh kom einnig fyrir þingnefndina og neitaði með öllu að hafa brotið gegn henni, og sagðist ekkert hafa fela. Hann hafi á ferli sínum marg sinnis verið rannsakaður af FBI, meðal annars þegar hann starfi fyrir George W. Bush í Hvíta húsinu og sem dómari við alríkisdómstól.
„Þetta hefur tætt fjölskyldu mína í sundur,“ sagði Kavanaugh, með tárin í augunum, en hann hann var í miklu uppnámi meðan hann las upp yfirlýsingu sína. Hann vitnaði í sínar eigin dagbækur, máli sínu til stuðnings, og sagði frásögn Ford ekki passa við það sem hann hefði skrásett. Hann hefði ekki verið í samkvæmi með Ford þessa helgi sem hún hefði nefnt, og dagbækurnar sýndu það.
Ford var staðföst í sínum vitnisburði og sagðist ekki efast um að það var Kavanaugh sem braut gegn henni en ekki einhver annar.
Miklar tilfinningar voru meðal þingnefndarmanna. Úr hópi Repúblikana mátti heyra, að þeir trúðu frekar Kavanaugh og lét einn þeirra þau orð falla að þetta væri líklega svívirðilegasta árás sem sést hefði í stjórnmálum nokkru sinni í Bandaríkjunum.
Demókratar sögðu ekki vera hægt að trúa frekar Kavanaugh en Ford, bara vegna þess að hann benti á dagbækur sínar. Það þyrfti meira til, og það væri heldur ekki hægt að slá trúverðugan framburð Ford útaf borðinu.
Hún hefði líka gengið í gegnum mikla erfiðleika og fjölskylda hennar, vegna þeirrar ákvörðunar hennar að stíga fram og segja frá brotinu gegn henni.