Heildarafsláttur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar var samtals um 2,75 milljarðar króna í fyrra, sem er 8,9 prósent meira en hann nam árið 2016. Afslátturinn virkar þannig að hann gengur upp í álagðan tekjuskatt ef fyrirtækið sem á rétt á honum er rekið í hagnaði og greiðir slíkar. Alls jókst skuldajöfnun á móti tekjuskatti úr 417 milljónum króna í 625 milljónir króna, eða um 50 prósent. Þorri afsláttarins er þó enn í formi beinnar endurgreiðslu. Rúmlega 2,1 milljarður króna fór til fyrirtækja sem þáðu slíka vegna rannsókna og þróunar, 17 milljónum króna meira en fóru í slíkar beinar endurgreiðslur vegna ársins 2016. Þetta kemur fram í tölum um álagningu opinberra gjalda á lögaðila vegna rekstrarársins 2017 sem fjármála- og efnahagsráðuneytið birti í gær.
Endurgreiðslurnar hafa vaxið mikið á undanförnum árum. Milli áranna 2016 og 2017 jukust þær til að mynda um 800 milljónir króna. Ástæðan fyrir þeirri miklu aukningu var sú að hámarksupphæð sem nýta mátti í rannsóknir og þróun og draga má frá skatti var hækkuð úr 100 milljónum króna í 300 milljónir króna með lagabreytingu sem samþykkt var í byrjun júní 2016. Ef um er að ræða samstarfsverkefni eða sem útheimta aðkeypta rannsóknar- eða þróunarvinnu hækkar hámarkið í 450 milljónir króna. Endurgreiðslan getur þó að hámarki numið 20 prósent af samþykktum kostnaði.
Ríkisstjórnin vill afnema þakið
Endurgreiðsla á rannsóknar- og þróunarkostnaði er ætlað að efla nýsköpun í landinu. Samkvæmt lögum er eingöngu heimilt að telja fram beinan kostnað við verkefni og annarra aðfanga sem notuð hafa verið við vinnslu þess þegar sótt er um endurgreiðslu. Með öðrum orðum þá verða fyrirtæki að aðskilja allan annan rekstur sinn frá því verkefni sem um ræðir þegar lagðar eru fram kostnaðartölur við vinnslu þess.
Til þess að fá endurgreiðslu á kostnaði vegna rannsóknar og þróunarverkefna þarf að gera sérstaklega grein fyrir verkefninu í rafrænni skráningu umsóknar á heimasíðu Rannís. Með þarf að fylgja stutt viðskiptaáætlun og ef um samstarfsverkefni er að ræða þá þarf samstarfssamningur líka að berast til Rannís. Þá á að fylgja með lýsing á verkefninu ásamt verk- og kostnaðaráætlun.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur lagt mikla áherslu á nýsköpun og rannsóknir. Málaflokkurinn er sérstaklega tilgreindur í stjórnarsáttmála hennar sem ein af megináherslum hennar og orðið nýsköpun kemur fyrir 18 sinnum í honum. Þá er kveðið á um að ríkisstjórnin ætli, til að bæta alþjóðlega samkeppnishæfni landsins, að endurmeta fyrirkomulag á endurgreiðslu kostnaðar vegna rannsókna og þróunar í því skyni að afnema þak sem verið hefur á slíkum endurgreiðslum. Það þak er nú, líkt og áður sagði, 300 til 450 milljónir króna á ári.