Iceland Airwaves ehf. hefur sótt um einkaleyfi á vörumerkinu Iceland Airwaves Off Venue. Meðfram tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves, sem haldin er í Reykjavík á haustin á ári hverju, hafa verið haldnir viðburðir undir „Off Venue“ heitinu, eða það sem myndi kallast utan formlegs vettvangs hátíðarinnar. Tónleikar sem haldnir eru Off Venue eru þá í raun aldrei hluti af formlegu hátíðarhaldi, heldur minni viðburðir sem haldnir eru sjálfstætt samhliða formlegum stórhátíðum. Ekki er heldur rukkað inn á Off Venue viðburði. Í sjálfu sér er hugtakið Off Venue því þess eðlis að það að ætla að gera það lögformlega að hluta að hátíð er ákveðin þversögn.
Nýr framkvæmdastjóri hátíðarinnar og forstjóri Senu Live, Ísleifur Þórhallsson, lét hafa eftir sér í útvarpsþættinum Harmageddon í febrúar, að endurskoða þyrfti Off Venue fyrirkomulag hátíðarinnar ef hún ætti að geta lifað áfram.
Ísleifur sagði að gífurleg aukning hefði orðið á Off Venue hluta Iceland Airwaves en hljómsveitir sem bókaðar eru á hátíðina hafi einnig verið að spila á Off Venue viðburðum. Ísleifur sagði að með þessu fyrirkomulagi væri búið að kenna fólki að það geti upplifað langflesta af þeim tónlistarmönnum sem eru á Airwaves án þess að borga sig inn á hátíðina.
Fáist vörumerkið skráð verður hægt að banna öðrum að nota Iceland Airwaves Off Venue einhvers staðar þar sem verið er að selja veitingar, eða í raun og veru á öllum tónleikastöðum.
Töluverð umræða skapaðist um breytt fyrirkomulag í Off Venue viðburðahaldi á Facebooksíðu tónlistarmannsins Svavars Knúts fyrr í þessum mánuði, þar sem hann greindi meðal annars frá því að Sena Live hafi hækkað gjaldið fyrir þátttöku Off Venu tónleikastaða á Iceland Airwaves úr 50 þúsund krónum í 500 þúsund krónur á hvern tónleikastað, en fyrir þá fjárhæð komast viðburðirnir til dæmis inn á auglýsta dagskrá Airwaves hátíðarinnar. Auk þess sem Sena geri kröfu um hlut af áfengsissölu hvers tónleikastaðar. Svavar segir þetta ekki réttu leiðina til að hátíðin rétti úr kútnum að hans mati en Svavar hefur undanfarið valið að spila frekar Off Venue heldur en á hátíðinni sjálfri þar sem honum líður eins og hann eigi heima.
Svavar Knútur tekur það ítrekað fram að honum þyki vænt um hátíðina og að hún sé mikil lyftistöng fyrir íslenskt listafólk.
Ísleifur Þórhallsson framkvæmastjóri Senu Live veitti Kjarnanum ekki viðtal um málið þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Mér finnst Iceland Airwaves æðisleg hátíð og á henni átti ég tvær af bestu tónleikaupplifunum ævi minnar; í...
Posted by Svavar Knútur on Wednesday, September 5, 2018