„Ég fúslega viðurkenni að það er ýmislegt sem er gagnrýnisvert í þessu, og ég kveinka mér ekkert undan því,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, um hátíðarfundinn sem haldinn var á Þingvöllum þann 18. júlí síðastliðinn. Þetta kom fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við hann í þættinum 21 á Hringbraut á fimmtudagskvöld.
Hátiðarfundurinn hefur verið mjög gagnrýndur vegna ýmissa þátta. Fyrst vegna þess að Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins, ávarpaði fundinn. Kjærsgaard, og flokkur hennar Danski þjóðarflokkurinn, eru afar umdeild, sérstaklega vegna afstöðu þeirra gagnvart fjölmenningu, innflytjendum og íslam. Vera hennar á fundinum varð til þess að þingflokkur Pírata mætti ekki á hann og Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar, gekk út af honum á meðan að Kjærsgaard talaði. Þá báru margir þingmenn barmmerki þar sem útlendingaandúð var hafnað.
Afar fáir landsmenn gerðu sér ferð á Þingvelli til að vera viðstaddir fundinn, og mun færri en búist hafi verið við.
Aðspurður um hvort ofangreint, og sú gagnrýni sem hefur verið sett fram vegna þess, geri það að verkum að forsvaranlegt sé að halda svona hátíðarfund segir Steingrímur að hann telji enn svo vera. „Við eigum að minnast hátíðarstunda í okkar sögu. Mér finnst gott að Alþingi haldi tengslum sínum við Þingvöll, þetta er okkar forni og helgi þingstaður. Ég vil, ef eitthvað er, að Alþingi geri meira í því. Ég hef til dæmis varpað fram hugmyndum um að kannski ættum við að setja hvert nýtt þing að loknum kosningum undir berum himni á Þingvöllum.“
Í þættinum ræðir Steingrímur einnig meðal annars ýmsar aðgerðir sem ráðist hefur verið í til að styrkja starfsemi Alþingis og traustkrísu stjórnmálanna. Hægt er að horfa á viðtalið í heild hér að neðan.