WOW air mun ekki fljúga til Stokkhólms, Edinborgar og San Francisco yfir vetrarmánuðina og mun félagið aflýsa flugum frá 5. nóvember næstkomandi til byrjun apríl á næsta ári. Þetta kemur fram í tilkynningu frá WOW air.
Í tilkynningunni segir jafnfram að þessi ákvörðun hafi verið tekin með það að leiðarljósi að ná fram aukinni hagræðingu í rekstri félagsins.
„Eins og þegar hefur komið fram verður seinkun á afhendingu á tveimur glænýjum Airbus A330neo vélum sem áttu að koma í nóvember en koma núna ekki fyrr en í lok febrúar. Fyrir vikið neyðist félagið til þess að gera breytingar á leiðarkerfi félagsins í vetur.“
Síðustu flug til Stokkhólms, Edinborgar og San Francisco verða 5. nóvember næstkomandi. Haft verður samband við alla farþega sem eiga í hlut, þeim boðin endurgreiðsla eða að gera breytingar á ferðahögun sinni án þess að greiða breytingargjald.
Flug mun svo hefjast aftur til Stokkhólms, Edinborgar og San Francisco í byrjun apríl á næsta ári, segir í tilkynningu félagsins.