Samtök atvinnulífsins (SA) sendu viðsemjendum sínum í gær bréf þar sem útlistuð eru atriði sem þau telja mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins hugi að í komandi kjarasamningsviðræðum. Núgildandi kjarasamningar SA og aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands renna út um áramótin. Þessir kjarasamningar ná til ríflega 100 þúsund starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA segir í samtali við Fréttablaðið að þetta sé leið SA til leggja sín spil á borðið með von um, í samvinnu við stéttarfélögin, að hægt sé að láta kapalinn um að bætt lífskjör almennings ganga upp. SA vill benda á að lífskjarabarátta snúist ekki einungis um launahækkanir.
Í bréfinu er fjallað um neikvæð áhrif launahækkana á samkeppnisstöðu íslensk atvinnulífs undanfarin ár. SA vil bregðast við því með því leggja áherslu á að komandi breytingar á launum verði að vera í samræmi við markmið um stöðugt verðlag og lækkun vaxta.
Lítið svigrúm til launahækkana
Málin sem SA leggur á borðið eru meðal annars aukið framboð á húsnæði til leigu og eignar. SA vill einnig skoða þann möguleika að breyta skilgreindu dagvinnutímabili, uppgjörstímabili yfirvinnu og álagsgreiðslum en hlutfall síðastnefndu þáttanna í heildarlaunum er með það hæsta móti hér á landi, samkvæmt samtökunum.
SA vill einnig ræða breytt skipulag og sveigjanleika. Halldór segir að þegar þessi mál hafi verið leyst, sem og málin sem viðmælendur þeirra vilja semja um, að aðeins þá sé hægt að meta rýmið til breytinga á launum en hann lætur það fylgja með að umrætt svigrúm sé afar takmarkað.
Hann segir innihald bréfsins ekki beint að ríki eða sveitarfélögum, heldur snúist þessar samningsviðræður um að ná sátt við verkalýðshreyfinguna. Hann nefnir að það séu fleiri mál sem sameini atvinnurekendur og launþegahreyfingum heldur en sundri. Halldór vonast eftir góðri samvinnu svo að nýju samningarnir afgreiðist áður en núverandi samningar renni út.
„Ekki orð um ofurlaun“
Drífa Snædal, önnur þeirra sem er í framboði til forseta ASÍ og framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, hefur nú þegar tjáð sig um bréf SA á Facebook-síðu sinni. Hún gagnrýnir að SA sendir bréf þar sem þau tilkynna að þau séu tilbúin í samningsviðræður þar sem launahækkanir standi ekki til boða og leggi fram fleiri leiðir til að skerða réttindi launafólks.
„Ekki orð um ofurlaun eða hvernig skal stemma stigu við sjálftöku eigenda og stjórnenda fyrirtækja. Ekki orð um að beita skattkerfinu til jöfnunar. Ekki orð um hvernig atvinnurekendur ætla að tryggja fólki laun til framfærslu. Takk fyrir það!“ segir Drífa í stöðuuppfærslu sinni.
SA er tilbúið í dans um engar hækkanir og skerðingar á réttindum launafólks...... af því það er gott fyrir okkur öll!...
Posted by Drífa Snædal on Tuesday, October 2, 2018