Greiðslur úr sjúkrasjóðum tveggja stærstu stéttarfélaga landsins, VR og eflingu hafa aukist til muna á þessu ári. Á fyrstu sjö mánuðum ársins hækkuðu sjúkra- og dagpeninga greiðslur um 43 prósent hjá VR frá því á sama tíma og í fyrra. Hjá Eflingu hækkuðu greiðslurnar um 39 prósent á milli ára. Hækkunin skýrist af hluta til af því að laun hafa hækkað og félagsmönnum hefur fjölgað. Sigríður Ólafsdóttir, sviðsstjóri sjúkrasjóðs Eflingar segir engu að síður að: „Þó er ljóst að veikum hefur fjölgað, þeir voru lengur veikir og fengu hærri upphæðir,“ Morgunblaðið greinir frá þessu í morgun.
Haft er eftir Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, í blaðinu að iðgjöld í sjúkrasjóð félagsins hafi numið 1,8 milljörðum í fyrra og verði um tveir milljarðar í ár. Ragnar segir félagið komið yfir 80 prósent útgreiðsluhlutfalls en VR er með einn öflugasta sjúkrasjóð landsins og því stendur félagið enn sem komið er undir greiðslunum. „Ef þessi þróun heldur áfram þá endar þetta bara á einn veg, með skerðingum. Þetta getur ekki haldið áfram endalaust.”
Ragnar segir brýnt að komast að rót vandans en annars sé viðbúið að afleiðingarnar leggist af þunga á almannatryggingakerfið. „Við viljum vita af hverju fólkið okkar er að gefast upp. Hvað er það í okkar samfélagi sem veldur því að við erum að missa fólk í þetta miklum mæli í veikindi, í streitutengda sjúkdóma, og út af vinnumarkaði?“