Björgólfur Thor Björgólfsson athafnamaður kallar eftir í pistli á heimasíðu sinni í dag að nú þurfi á 10 ára hrunafmælinu að fá endanlegar skýringar á því hvert gjaldeyrisforði þjóðarinnar hafi farið sem Kaupþing fékk að láni frá Seðlabankanum.
Í pistlinum lýsir Björgólfur því hvernig ríkisstjórn Íslands hafi átt möguleika á að bjarga einum af stóru bönkunum þremur haustið 2008. Hann gagnrýnir að Landsbankinn hafi ekki fengið lán frá Seðlabankanum til að „bjarga“ bankanum hrunhelgina 2008 en þess má geta að Björgólfur var einn aðaleigandi Landsbankans á þeim tíma.
Samkvæmt Björgólfi þurfti Landsbankinn 200 milljóna punda fyrirgreiðslu frá Seðlabankanum til að koma innlánsreikningum Landsbankans undir breska lögsögu en í stað þess veitti Seðlabankinn Kaupþingi 500 milljóna evra þrautvaralán gegn veði í danska bankanum FIF, daginn sem neyðarlögin voru sett.
„Allur gjaldeyrisforðinn rann þar einu bretti í vafasamar björgunaraðgerðir Kaupþingsmanna, þar sem helsta markmiðið var að tryggja stjórnendum bankans, mönnum sem höfðu stýrt félagi í örfá ár, milljarða í eigin vasa,“ segir Björgólfur.
Fyrr í vikunni sagði Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í viðtali í Kastljósi að hann teldi að hann hefði verið blekktur í aðdraganda láns Seðlabankans til Kaupþings árið 2008. Í viðtalinu segir hann að veðið í FIH-bankanum hafi þótt vera mjög traust veð. Það hafi átt að duga fyrir þessu þrautavaraláni og öðrum skuldum. Það hafi hins vegar verið hans skilningur að fjármagnið sem átti að fara til Kaupþings ætti að fara í að greiða úr þeim erfiðleikum sem bankinn átti við að stríða gagnvart breska fjármálaeftirlitinu. Þá hefði verið hægt að bjarga bankanum og að það hefði gjörbreytt stöðunni ef Kaupþing hefði lifað kreppuna af, þess vegna hafi lánið verið veitt. „En því miður fór þetta á annan veg og þessir peningar fóru, eftir því sem ég best veit, eitthvað annað en til stóð,“ segir Geir í viðtalinu.
Björgólfur fer einnig mikinn í pistlinum um hversu hentugt það hafi verið hversu lengi Icesave-deilan var í brennidepli í samfélaginu, að málið hafi verið smjörklípa sem þjónaði hagsmunum ákveðinna aðila. „Og á meðan hrópað var hátt um að Icesave héldi þjóðinni í heljargreipum og hneppti íslensk börn í breska ánauð um ókomna tíð var horft framhjá því að menn fengu að stinga gjaldeyrisforða landsins að stórum hluta í eigin vasa og stjórnvöld fóru sínu fram með vafasömum björgunum á sparisjóðum í æskilegum kjördæmum, svo eitt dæmi sé tekið.“