Forseti Alþjóðalögreglunnar Interpol, Kínverjinn Meng Hongwei, er horfinn. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins BBC, en síðast er vitað um ferðir hans þegar hann var að leggja í hann til Kína frá Lyon í Frakklandi, 25. september.
Jurgen Stock, næstráðandi Interpol, hefur tekið við stjórnartaumunum í fjarveru Hongwei, af því er segir í tilkynningu frá Interpol.
#NEWS - Media statement concerning INTERPOL President Meng Hongwei. pic.twitter.com/P46AeXsGiS
— INTERPOL (@INTERPOL_HQ) October 5, 2018
Heimildarmenn sem AFP vitnar til, segja að hann sé ekki talinn vera í Frakklandi, og því líklegast að hann hafi horfið í Kína. Hins vegar hafa frönsk yfirvöld ákveðið að hefja rannsókn á málinu. Í tilkynningu Interpol segir að kínversk stjórnvöld séu einnig að rannsaka málið.
Í umfjöllun BBC kemur fram að fjölskyldumeðlimir Hongwei hafi leitað til franskra yfirvalda vegna málsins, en hvarf Hongwei þykir falla vel í mynstur svipaðra mála undanfarinna ára, þar sem háttsett fólk í kínverska Kommúnistaflokknum hefur beinlínis horfið af sviði stjórnmála eða stofnana.
Hongwei tók við sem forseti Interpol í nóvember 2016 og nær ráðningartímabil hans fram á árið 2020. Hann hefur yfir 40 ára reynslu af lögreglustörfum, og var um tíma aðstoðarráðherra á sviði þjóðaröryggismála í Kína. Hann er 65 ára gamall.