Fjármálastöðugleikaráð telur að möguleg áföll í fluggeiranum myndu ekki ógna fjármálastöðugleika á Íslandi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu á vef stjórnarráðsins um það sem fjallað var um á fjórða fundi sínum á þessu ári, sem fram fór síðastliðinn föstudag.
Í ráðinu sitja Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Már Guðmundsson seðlabankastjóri og Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Í tilkynningunni segir að innlendir flugrekendur hafi lent í „mótvindi undanfarna mánuði“ en að möguleg áföll þeirra myndu ekki ógna fjármálastöðugleika. „Þá er geta þjóðarbúsins til að takast á við áföll góð, m.a. vegna góðrar ytri stöðu, stórs gjaldeyrisforða og sögulega lágrar skuldastöðu hins opinbera og einkaaðila.“
WOW air bjargaði sér fyrir horn en Primera féll
Stóru íslensku flugfélögin tvö, WOW air og Icelandair, hafa bæði átt í vandræðum upp á síðkastið og það sér ekki fyrir endann á því ennþá, þrátt fyrir að WOW air hafi bjargað sér að minnsta kosti tímabundið fyrir horn nýverið með því að útvega 60 milljónir evra, eða um 7,7 milljarða króna, í skuldabréfaútboði.
WOW air vinnur nú að því að afla meira fjár og verða skráð á markað eins fljótt og hægt er, og eru Arctica Finance og Arion banki að vinna að því ferli með fyrirtækinu.
Icelandair í viðræðum við skuldabréfaeigendur
Icelandair hefur verið rekið með tapi síðustu misseri og félagið hefur birt afkomuviðvaranir í Kauphöll Íslands vegna þess að áætlanir þess hafa ekki staðist.
Í síðustu viku sendi Icelandair frá sér tilkynningu þess efnis að félagið hefði hafið viðræður við skuldabréfaútgefendur sína í ljósi þess að lægri rekstrarhagnaður félagsins gæti mögulega gert það að verkum að það uppfylli ekki fjárhagslegar kvaðir varðandi hlutfall heildar vaxtaberandi skulda sem getið er í skilmálum skuldabréfa Icelandair.
Viðræðurnar eru við fulltrúa skuldabréfaeigenda sem ráða yfir meira en 50 prósent af hinum útgefnu bréfum.