Starfsgreinasambandið hefur sent frá sér kröfugerð fyrir komandi kjaraviðræður og er í henni gerð krafa um 425 þúsund króna lágmarkslaun og víðtækar kerfisbreytingar, bæði á vinnuumhverfi launafólks og skattastefnu stjórnvalda.
Kröfugerðin, sem samþykkt var á fundi samninganefndar í dag, er tvíþætt og beinist að stjórnvöldum og Samtökum atvinnulífsins.
Kjarasamningar renna út úm áramót. Aðlildarfélög eru Efling-stéttarfélag, Vlf. Akraness, Stéttarfélag Vesturlands, Vlf. Snæfellinga, Vlf. Vestfirðinga, Vlsfél. Bolungarvíkur, Stéttarfélagið Samstaða, Aldan stéttarfélag, Eining-Iðja, Framsýn stéttarfélag, Vlf. Þórshafnar, Afl-Starfsgreinafélag, Vlf. Suðurlands, Báran stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag, Vfl. Grindavíkur, Vlsfél. Keflavíkur og nágrennis (VSFK), Vlsfél. Sandgerðis og Vlf. Hlíf.
Í kröfugerðinni gagnvart SA kemur meðal annars fram:
„Lágmarkslaun verði 425.000 krónur í lok samningstímans að því gefnu að ekki komi til umtalsverðra skattkerfisbreytinga, þannig að sköttum verði létt af lægstu launum og lægri millilaunum.
Launataflan verði endurskoðuð og einfölduð verulega og skilgreint sé hundraðshlutfall á milli flokka og þrepa. Fjöldi þrepa verði aukinn þannig að starfsaldursþrep miðist við eins árs, 3ja ára, 7 ára og 10 ára þrep.
Ungmennalaun yfir 18 ára aldri verði afnumin en þess í stað miðist grunnlaun við 18 ára aldur. Ábyrgð og álag verði metið til launa með skilgreindu hundraðshlutaálagi. Með ábyrgð og álagi er meðal annars átt við þjálfun nýrra starfsmanna, álag sem fylgir manneklu á vinnustað, álag vegna tilfinningavinnu, ábyrgð á öryggi viðskiptavina, farþega og vinnufélaga.
Álag fyrir vaktavinnu á tímabilinu frá miðnætti til kl. 8 skal vera hærra.
Orlofs- og desemberuppbætur taki sérstökum hækkunum.
1.maí verði skilgreindur sem stórhátíðardagur,“ segir í kröfugerðinni.
Í kröfugerðinni gagnvart stjórnvöldum er meðal annars gerð krafa um hækkun á fjármagnstekjuskatti og tvöföldun á persónuafslætti. „Lægstu laun verði skattfrjáls með tvöföldun persónuafsláttar, sem verði síðan stiglækkandi með hærri tekjum, þannig að lækkun skatta á lág- og millitekjuhópa verði m.a. fjármögnuð með hærra skattaframlagi þeirra tekjuhæstu. Álagning tekjuskattkerfisins á lægri og hærri tekjuhópa verði þar með líkari því sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Sá persónuafsláttur sem um semst þarf að fylgja launaþróun þannig að ekki dragi jafnt og þétt úr tekjujöfnunaráhrifum skatta- og bótakerfisins eins og varð á síðustu áratugum,“ segir meðal annars í kröfugerðinni.
Lesa má kröfugerðina gagvart stjórnvöldum hér, og kröfugerðina gagnvart SA hér.