Gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum hefur veikst nokkuð að undanförnu og hélt sú þróun áfram í dag.
Krónan veiktist gagnvart evru um 1,36 prósent og kostar nú tæplega 135 krónur. Þetta er nokkur breyting frá því í mar, þegar evran kostaði tæplega 120 krónur.
Sama má segja um Bandaríkjadal en hann kostar nú tæplega 117 krónur en kostaði, þegar gengi krónu var sterkast á árinu, tæplega 99 krónur.
Mest var veiking krónu gagnvart norsku krónunni að undanförnu, en gengi hennar gagnvart helstu erlendu myntum hefur styrkst að undanförnu, samhlið hækkun olíuverðs.
Verðbólguþrýstingur hefur farið vaxandi að undanförnu, sé horft til þróunar á ýmsum hagstærðum sem hafa áhrif á verðbólgu, svo sem olíuverð og launaþróun. Verðbólga mælist nú 2,7 prósent, sem telst lágt í sögulegu samhengi á Íslandi, en það er lítið eitt yfir verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands, sem er 2,5 prósent.
Væntingar um meiri verðbólgu
Eitt af því sem segja má að sé óvissþáttur, þegar kemur að þróun verðbólgunnar á Íslandi, er útkoman úr kjaraviðræðum í vetur, en samningar fjölmargra stéttarfélaga eru lausir um áramót. Eins og greint var frá í dag þá hefur samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands sent frá sér kröfugerð gagnvart stjórnvöldum og Samtökum atvinnulífsins, en samkvæmt henni er farið fram á tugprósenta hækkun lágmarkslauna, úr 300 þúsund í 425 þúsund, en jafnframt er farið fram á víðtækar kerfisbreytingar, svo sem styttri vinnutíma, breytingar á skattkerfinu og tvöföldun persónuafsláttar.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands gerði verðbólguvæntingar að umtalsefni við vaxtaákvörðun sína, 3. október síðastliðinn, og sagði þá að væntingarnar væru á alla mælikvarða langt yfir verðbólgumarkmiði. „Verðbólga jókst milli fjórðunga á þriðja fjórðungi ársins eins og spáð var í ágúst. Verðbólga án húsnæðis hefur einnig aukist og munurinn milli mælikvarða á verðbólgu með og án húsnæðis hefur minnkað mikið. Áfram dregur úr árshækkun húsnæðisverðs en á móti vegur að innflutningsverð hefur hækkað umtalsvert að undanförnu. Að hluta endurspeglar það hraða hækkun olíuverðs á alþjóðamarkaði. Gengi krónunnar hefur lækkað frá síðasta fundi peningastefnunefndar og gengisflökt jókst í september m.a. vegna óvissu um fjármögnun eins af stóru flugfélögum landsins. Verðbólguvæntingar úr könnunum hafa haldist óbreyttar frá síðasta fundi peningastefnunefndar en verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hefur hækkað. Á alla mælikvarða virðast verðbólguvæntingar vera nokkuð yfir markmiði. Peningastefnunefnd ítrekar að hún hefur bæði vilja og þau tæki sem þarf til að halda verðbólgu við markmið til lengri tíma litið. Haldi verðbólguvæntingar áfram að hækka og festist í sessi umfram markmið mun það kalla á harðara taumhald peningastefnunnar. Aðrar ákvarðanir, einkum á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum, hafa þá áhrif á hversu mikill fórnarkostnaður verður í lægra atvinnustigi,“ sagði í yfirlýsingu peningastefnunefndar.
Meginvextir eru nú 4,25 prósent.
Breytingar á erlendum mörkuðum
Vextir víða um heim fara nú hækkandi, og má segja að Seðlabanki Bandaríkjanna hafi leitt þá þróun. Stýrivextir þar í landi hafa farið hækkandi að undanförnu og eru nú 2,25 prósent, en þeir héldust á bilinu 0 til 0,25 prósent í átta ár. Verðbólguþrýstingur í Bandaríkjunum hefur farið hækkandi, og hefur um 40 prósent hækkun olíuverðs meðal á undanförnu 5 mánuðum meðal annars ýtt undir hann. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur kvartað sáran undan þessu, og kvatt Seðlabankann til að lækka vexti og hefur einnig beint því til OPEC ríkjanna, einkum Sádí-Arabíu, að auka framleiðslu á olíu til að lækka olíuverð.
Nokkur titringur er einnig á mörkuðum í Bandaríkjunum vegna viðskiptastríðs Bandaríkjanna og Kína, en deildar meiningar eru um ágæti þessara aðgerða fyrir Bandaríkin. Þannig hafa efasemdir meðal fjárfesta, um skynsemi þessa að setja tolla á meira en 250 milljarða Bandaríkjadala varning frá Kína, farið vaxandi.
MORE: FAANG stocks: Facebook down 1.7 percent, Apple down 2.2 percent, Amazon down 3.5 percent, Netflix down 5.5 percent, Google/Alphabet down 2.3 percent pic.twitter.com/8KjBelKdVp
— Reuters Business (@ReutersBiz) October 10, 2018
Í dag var verðhrun - sé litið til þróunar innan dags - á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum, en Nasdaq vísitalan hefur lækkað um 4 prósent það sem af er degi. Samkvæmt umfjöllun Wall Street Journal er ástæðan fyrir þessu meðal annars rakin til hækkandi vaxtaálags, þar sem fjárfestar eru þá að færa til fjármuni og þá meira úr hlutabréfum, yfir í skuldabréf.
Í Evrópu voru einnig lækkanir á mörkuðum í dag, á bilinu 1 til 3 prósent. Seðlabanki Evrópu hefur gefið það út að hann muni hætta víðtækum örvunaraðgerðum sínum í desember næstkomandi, en hann hefur keypt skuldabréf fyrir um 60 milljarða evra á mánuði undanfarin ár, með það að markaði að örva hagvöxt. Búist er við því að vextir muni fara almennt hækkandi, eftir að þessu tímabili lýkur.