Um 58 þúsund Íslendingar fóru utan í september í ár eða 1,1 prósent fleiri en í september á síðasta ári. Samtals voru brottfarir Íslendinga á tímabilinu janúar til september um 503 þúsund talsins eða 8,8 prósent fleiri en á sama tímabili árið 2017. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Ferðamálastofu sem send var út í dag.
Í henni kemur fram að brottfarir erlendra farþega frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll í september síðastliðnum hafi verið tæplega 232 þúsund talsins eða um 28 þúsund fleiri en í september á síðasta ári. Fjölgunin nam 13,6 prósent á milli ára, sem er álíka og í maí og mun meiri en mælst hefur aðra mánuði ársins.
Samkvæmt talningu Ferðamálastofu voru Bandaríkjamenn fjölmennastir í september eða ríflega þriðjungur og fjölgaði þeim um 43,7 prósent milli ára. Af 32 þjóðernum sem talin eru sérstaklega var fjölgun frá 19 löndum. Að Bandaríkjamönnum frátöldum fjölgaði Spánverjum, Kínverjum og Pólverjum mest. Fækkun var frá nokkrum lykilmörkuðum á borð við Bretland, Þýskaland og Frakkland.
Dregur úr fjölgun ferðamanna
Frá áramótum hefur um 1,8 milljón erlendra farþega farið úr landi um Keflavíkurflugvöll sem er 5,5 prósent fjölgun miðað við sama tímabil í fyrra.
Farþegum í september fjölgar nú um 13,6 prósent milli ára sem er álíka og í fyrra en mun minni fjölgun en árin þar á undan. Fjölgunin í september var að jafnaði 24 prósent milli ára síðastliðin fimm ár mest frá 2015 til 2016 eða 33,9 prósent.
Segir í tilkynningunni að sé tímabilið frá áramótum skoðað – í samanburði við sama tímabil nokkur ár aftur í tímann – megi glögglega sjá að dregið hefur verulega úr þeirri fjölgun sem verið hefur síðustu ár. Frá áramótum hefur verið 5,5 prósent fjölgun en á sama tíma fyrir ári var hún 28,1 prósent. Næstu tvö tímabil þar á undan hafði fjölgun á milli ára verið á bilinu 28 til 34 prósent milli ára.