Bjarni Benediktsson fjármála og efnahagsráðherra lagði fram nýtt frumvarp um rafræna birtingu á álagningu skatta og gjalda. Í því felst að rafræn birting verður meginreglan þegar kemur að birtingu tilkynninga um álagningu skatta og gjalda. Samkvæmt frumvarpinu er þetta gert til að minnka ríkisútgjöld og auka hagræðingu.
Í frumvarpinu segir að rafrænar tilkynningar hafi jákvæð fjárhagsleg áhrif í för með sér fyrir ríki og sveitarfélög. En með því að falla frá skriflegum tilkynningum um álagningu skatta og gjalda þá er talið að útgjöld ríkisins dragist saman um 120 milljónir króna á ári. Sú upphæð er samanlagður kostnaður ríkisaðila af póstburðargjöldum.
Óbein áhrif af breytingunum eru einnig jákvæð fjárhagslega, svo sem minna umstang við umsýslu skjala, betra aðgengi að gögnum og hagkvæmari vistun af hálfu álagningaraðila, einstaklinga og lögaðila, segir í frumvarpinu. Einnig er rafræn birting almennt mun einfaldari í framkvæmd en bréfasendingar. Samkvæmt því sem segir í frumvarpinu þá hafa allir skattgreiðendur hagsmuni af þessum breytingum.
Liður í rafrænni stjórnsýslu.
Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar er lögð áhersla á bættan ríkisrekstur og einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings. Til að fylgja því eftir kom einnig fram að stefnt sé að öflugri rafrænni stjórnsýslu og fjölbreyttum möguleikum á sjálfsafgreiðslur fyrir gjaldendur.
Í júní síðastliðnum var gerð breyting á birtingu tilkynninga um álagningu bifreiðagjalda. Breytingin fólst í því að 205 þúsund einstaklingar fengu rafræna tilkynningu í pósthólfið á Ísland.is en ekki með bréfpósti eins og áður hefur tíðkast og 60 þúsund lögaðilar fengu sendan rafrænan reikning. Hægt var að óska eftir því hjá þjónustuveri tollstjóra að fá seðilinn sendan heim á pappírsformi. Breytingin var auglýst í blöðum, á vefmiðlum og með útvarpsauglýsingum. Hvað innheimtuna varðar var innheimtuhlutfallið 20. ágúst síðastliðinn örlítið betra en á sama tíma í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Fjársýslunni.
Í frumvarpinu segir enn fremur að Ísland sé í kjörstöðu þegar kemur að hagnýtingu upplýsingatækni við veitingu opinberrar þjónustu. Tæknilegir innviðir séu allir til staðar og aðgengi og notkun landsmanna á upplýsingatækni með því besta sem gerist.
Tækifæri til hagræðingar
Í stjórnsýslulögum er svokölluð birtingarregla, þ.e. að birta beri aðila máls efni ákvörðunar sem bindur enda á stjórnsýslumál. Ákvarðanir um álagningu skatta og gjalda eru taldar íþyngjandi og því eru þær jafnan tilkynntar skriflega hvort sem kveðið er á um slíkan birtingarhátt í sérlögum eða ekki. Í því ljósi og með hliðsjón af breytingum sem hafa orðið með auknum tækniframförum er tækifæri til hagræðingar fyrir hendi þegar kemur að útsendingu tilkynninga um álagningu skatta og gjalda, samkvæmt því sem kemur fram í frumvarpinu.