„Ég hlusta á það sem menn eru að segja,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um þá gagnrýni sem ýmsir samflokksmenn hennar hafa sett fram á innleiðingu hins svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins hérlendis. Hún bendir hins vegar á að Ísland hafi aldrei ákveðið að aflétta ekki stjórnskipulegum fyrirvara til að innleiða tilskipun frá Evrópusambandinu. „Það er engin hræðsluáróður að segja að við vitum ekki hvert það leiðir okkur. Vegna þess að ég hef engan heyrt svara því[...]„Ég er ekki sannfærð um að þetta sé slagur sem við eigum að taka, um efni máls, það er þessa þriðja orkupakka. Að við ætlum ekki að aflétta stjórnskipunarlegum fyrirvara.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali Þórdísar Kolbrúnar við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 sem frumsýndur var á miðvikudag. Hægt er þáttinn í heild í spilaranum hér að ofan.
Heitt pólitískt mál innan Sjálfstæðisflokks
Þriðji orkupakkinn er orðin að heitu pólitísku máli, sérstaklega innan Sjálfstæðisflokksins. Haldinn var fjölmennur fundur í Valhöll í lok ágúst á vegum hverfafélaga Sjálfstæðisflokksins í Smáíbúða-, Bústaða- og Fossvogshverfi og Hlíða- og Holtahverfi í Reykjavíkur. Sá fundur sendi frá sér ályktun þar sem skorað var „eindregið á forystu Sjálfstæðisflokksins að hafna þriðja orkupakka Evrópusambandsins á þeim grunni að hann stangast á við ákvæði stjórnarskrárinnar, opnar Evrópusambandinu leið til yfirráða yfir einni helstu auðlind Íslands og hækkar verð á raforku og afleiðingar til langs tíma eru óvissar.“
Þórdís Kolbrún segir að það verði að koma í ljós hvað þingmenn flokksins geri í málinu. „Ég segi bara að okkur liggur ekkert á að afgreiða þetta mál. Þessi umræða hún truflar mig ekkert. Mér finnst hún fín ef hún á endanum leiðir til þess að við komumst lengra í að ræða það sem málið snýst um. Það eru auðvitað skiptar skoðanir innan allra stjórnarflokkanna um þetta mál.“
Að hennar mati er algjört lykilatriði að setja meira fjármagn í að gæta hagsmuna Íslands þegar kemur að innleiðingum á tilskipunum frá Evrópusambandinu á grundvelli EES-samningsins. „Þetta er algjört lykilatriði og þetta er nákvæmlega það sem utanríkisráðherra hefur nú tekið ákvörðun um að gera. Og við erum að setja aukið fjármagn í þessa hagsmunagæslu úti sem skiptir öllu máli vegna þess að EES-samningurinn er í mínum huga og margra annarra mikilvægasti alþjóðasamningur sem við höfum.“
Tveir sérfræðingar segja áhrifin nær engin
Í minnisblaði sem lögmaðurinn Ólafur Jóhannes Einarsson, áður framkvæmdastjóri hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), gerði fyrir Þórdísi Kolbrúnu, og birt var opinberlega 17. apríl, kom skýrt fram að þriðji orkupakkinn haggi í engu heimildum íslenskra stjórnvalda til að banna framsal á eignarrétti að orkuauðlindum og rétti Íslands til að ákveða með hvaða skilyrðum orkuauðlindir landsins eru nýttar.
Í september vann svo lögmaðurinn Birgir Tjörvi Pétursson greinargerð þar sem fjallað var um hinn svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins og komst að því að hann kalli ekki á endurskoðun EES.