Ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins hefur ákveðið að hefja endurskoðun lagaumgjarðar um peningastefnu, þjóðhagsvarúð og fjármálaeftirlit. Fyrirliggjandi eru skýrslur sérfræðinga sem bregða birtu á ýmis viðfangsefni og tækifæri til úrbóta við framkvæmd peningastefnu og umgjörð þjóðhagsvarúðar og fjármálaeftirlits, nú síðast vinna starfshópa um endurskoðun á ramma peningastefnunnar og endurskoðun laga um fjármálaeftirlit frá því í júní síðastliðnum.
Þetta kemur fram í frétt forsætisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytisins.
Yfirstjórn þessa verkefnis verður í höndum ráðherranefndar um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins sem í sitja forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra. Á vegum ráðherranefndarinnar starfar verkefnisstjórn um peningastefnu, þjóðhagsvarúð og fjármálaeftirlit, skipuð af forsætisráðherra. Hún er skipuð fulltrúum forsætisráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis auk tengiliða frá Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu. Verkefnisstjórnin skal skila drögum að lagafrumvörpum til ráðherranefndar eigi síðar en 28. febrúar á næsta ári.
Samkvæmt ráðuneytunum kallar endurskoðunin á eftirfarandi:
- Breytingar á lögum sem lúta meðal annars að peningastefnunni, núverandi verkefnum Seðlabankans og yfirstjórn.
- Breytingar á lögum sem lúta að fyrirkomulagi þjóðhagsvarúðar.
- Breytingar á lögum um fjármálaeftirlit.
- Breytingar sem lúta að varanlegu fyrirkomulagi fjárstreymistækis.
- Breytingar á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans um verðbólgumarkmið.
- Breytingar á verklagi í peningastefnunefnd Seðlabankans.
Í fréttinni segir að meginleiðarljós vinnunnar verði að efla traust, gagnsæi og skilvirkni við yfirstjórn efnahagsmála. Miðað skuli við að viðhalda verðbólgumarkmiði sem meginmarkmiði peningastefnunnar og sjálfstæði Seðlabankans og peningastefnunefndar hans til að beita stjórntækjum til að ná því en gera viðeigandi breytingar sem efla traust og auka gagnsæi. Ennfremur skuli miðað við að sameina Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið með þeim hætti sem eflir traust og tryggir skilvirkni við framkvæmd þjóðhagsvarúðar og fjármálaeftirlits.