Ríkisstjórnin tók í dag ákvörðun um móttöku allt að 75 flóttamanna á næsta ári, að stærstun hluta Sýrlendingum sem staddir eru í Líbanon en einnig hinsegin flóttamönnum og fjölskyldum þeirra sem nú eru í Kenýa. Ákvörðunin byggist á tillögum flóttamannanefndar í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.
Þetta kemur fram í frétt velferðarráðuneytisins.
Í henni kemur fram að þetta sé í fjórða sinn sem stjórnvöld taka á móti sýrlensku flóttafólki en fyrsti hópurinn kom hingað árið 2015. Þetta sé í þriðja sinn sem tekið er á móti hinsegin flóttafólki.
Næstu skref vegna áformaðrar móttöku flóttafólks hér á landi verða að upplýsa Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna um ákvörðun ríkisstjórnarinnar, samkvæmt ráðuneytinu. „Stofnunin leggur í framhaldi af því fram upplýsingar um þá einstaklinga sem hún telur koma til greina að bjóða til Íslands og verður unnið úr þeim upplýsingum hér á landi, meðal annars með aðkomu Útlendingastofnunar. Þegar fyrir liggur hverjum verður tekið á móti og þar með upplýsingar um samsetningu hópsins, aldur, fjölskyldusamsetningu og fleira tengt aðstæðum þeirra og þörfum, semur velferðarráðuneytið við tiltekið sveitarfélag eða sveitarfélög um móttöku fólksins,“ segir í fréttinni.
Enn fremur kemur fram að Sýrlendingar séu fjölmennastir í hópi fólks á flótta í heiminum sem er í þörf fyrir alþjóðlega vernd. Sýrlenskir flóttamenn í Líbanon telji yfir milljón manns, búi þar við þröngan kost og staða þeirra hafi farið síversnandi. Um 55 prósent sýrlenskra barna á flótta sem stödd eru í Líbanon hafi ekki aðgang að formlegri menntun.
Jafnframt segir að staða hinsegin flóttafólks í Afríku sé viðkvæm vegna útbreiddra fordóma. Algengt sé að hinsegin flóttafólk og fjölskyldur þess verði fórnarlömb ofbeldis í flóttamannabúðum.