Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 0,6 prósent milli mánaða samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands. Hægir því enn á 12 mánaða hækkunartakti vísitölunnar sem er nú 3,9 prósent og hefur ekki verið lægri síðan í maí 2011 eða í rúmlega 7 ár, að því er segir í umfjöllun Íbúðalánasjóðs.
Mest var hækkunin 23,5 prósent, á vormánuðum í fyrra, en síðan hefur verulega hægst á hækkunum fasteignaverðs. Þúsundir íbúða eru nú í byggingu, til að mæta vaxandi eftirspurn eftir húsnæði, en gert er ráð fyrir að um 5 þúsund íbúðir komi út á markað á næstu 18 mánuðum.
Verð á fjölbýli skýrir að mestu leyti hækkun íbúðaverðs á milli mánaða en fjölbýli hækkar um 0,7 prósent milli mánaða á meðan hækkun á sérbýli mælist mun minni eða 0,2 prósent. Tólf mánaða hækkunartaktur sérbýlis er þó hærri en fjölbýlis en árshækkun sérbýlis er 4,4 prósent á móti 3,4 prósent árshækkun fjölbýlis.
Verð á nýjum íbúðum á markaði er umtalsvert hærra á hvern fermetra, heldur á eldri íbúðum, og hafa nýbyggingar á markaði því áhrif til hækkunar á fasteignaverðið. Einkum á það við um íbúðir á dýrum lóðum á eftirsóttum stöðum í miðborginni, en dýrustu íbúðirnar á Hafnartorgi kosta til dæmis um 900 þúsund á fermetra, en algengt verð á markaði er 400 til 500 þúsund.