Nýtt frumvarp liggur nú fyrir þar sem lagt er til að sett verði ný stofnlög um ærumeiðingar þar sem mælt verði fyrir um einkaréttarleg úrræði til að bregðast við ærumeiðingum og samhliða verði ákvæði almennra hegningarlaga um ærumeiðingar felld úr gildi.
Frumvarpið er komið í samráðsgátt stjórnvalda en umsagnarfrestur er til 12. nóvember næstkomandi.
Verði frumvarpið að lögum verða refsingar vegna ærumeiðinga afnumdar. Auk þess verður ómerking ummæla, sem úrræði vegna ærumeiðinga, afnumin, sem og núgildandi heimild til þess að dæma fjárhæð til þess að standast kostnað af birtingu dóms. Þá verður felld úr gildi hin sérstaka vernd sem opinberir starfsmenn hafa notið og einnig hin sérstaka æruvernd sem erlend ríki, fáni þeirra, þjóðhöfðingi o.fl. hafa notið.
Fimm frumvörpum til laga um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis hefur verið skilað til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra en sérstök nefnd sem vann að málunum kynnti afrakstur vinnu sinnar í fyrri áfanga nefndarstarfsins á blaðamannafundi í gær í Þjóðminjasafninu.
Tvenns konar úrræði: Miskabætur og bætur fyrir fjártjón
Gert er ráð fyrir tvenns konar úrræðum í frumvarpinu, miskabótum og bótum fyrir fjártjón. Þannig heimila lögin að láta þann sem með saknæmum og ólögmætum hætti meiðir æru einstaklings með tjáningu greiða miskabætur til þess sem misgert er við. Með sömu skilyrðum skal dæma bætur fyrir fjártjón ef því er að skipta.
Við beitingu framangreindra úrræða skal samkvæmt frumvarpinu meðal annars höfð hliðsjón af sök, efni tjáningar og aðstæðum að öðru leyti. Þá eru taldar upp nánar tilteknar aðstæður sem gera það að verkum að ekki kemur til bótaábyrgðar þegar þær eru fyrir hendi. Meðal þessara aðstæðna er ef sýnt hefur verið fram á að ummæli séu sannleikanum samkvæm, eða ef um er að ræða gildisdóm sem settur er fram í góðri trú og hefur einhverja stoð í staðreyndum.
Áfram ákvæði um hatursorðræðu
Ekki er lögð til breyting á þeim ákvæðum hegningarlaga sem stundum hafa verið kennd við friðhelgi einkalífs í þrengri merkingu. Þá er gert ráð fyrir að áfram verði ákvæði um hatursorðræðu. Ekki er heldur í frumvarpinu lögð til nein breyting á reglum um það hver beri hina lagalegu ábyrgð á ummælum hverju sinni. Mun það því áfram ráðast af lögum um fjölmiðla og öðrum almennum reglum.
Þá er ekki lögð til breyting á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, sem heimilar meðal annars miskabætur vegna ólögmætrar meingerðar gegn æru. Það ákvæði hefur víðtækara gildissvið og getur tekið til ærumeiðinga sem ekki felast í tjáningu, til dæmis þegar starfsmanni er vikið úr starfi, auk þess sem umræddur b-liður er algengasta bótaheimildin í kynferðisbrotamálum.
Verði frumvarpið að lögum er því gert ráð fyrir að það eigi við þegar ærumeiðing felst í tjáningu, einkum í formi ummæla og að sú vernd sem felist í frumvarpinu komi í þeim tilvikum í stað þeirrar verndar sem hingað til hefur falist í b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga að því leyti. Ákvæði b-liðar 1. mgr. 26 gr. skaðabótalaga eigi hins vegar við varðandi annars konar meingerðir en þær sem felast í tjáningu.