Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB kalla eftir samfélagslegri ábyrgð stjórnenda í atvinnulífinu í opnunarávarpi sínu á 45. þingi BSRB á Hilton hótel Nordica í morgun. „Við sjáum svo nú að stjórnendur margra stórra fyrirtækja virðast ekkert hafa lært af hruninu, annað en kannski að senda ekki viðkvæmar upplýsingar í tölvupósti.“
Hún segir að aldrei verði sátt í samfélaginu á meðan bætt kjör og betri lífsgæði eigi bara við um suma en ekki alla. Stjórnendur fyrirtækja virðist enn halda að það sé ásættanlegt að greiða stjórnendum laun langt umfram veruleika venjulegs launafólks og að auki háa bónusa fyrir það eitt að sinna sínum störfum. Þá hafi stjórnvöld fylgt í kjölfarið með gríðarlegum launahækkunum til æðstu stjórnenda.
Í ávarpi sínu kallaði hún enn fremur eftir samstöðu launafólks og opnu og hreinskilnu samtali við viðsemjendur, stjórnvöld og sveitastjórnir um allt land. „Við megum ekki falla í þá gryfju að hugsa um viðsemjendur okkar sem óvini. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að búa til betra samfélag, þó áherslurnar og leiðirnar sem við viljum fara geti verið býsna ólíkar,“ segir Elín Björg.
„Þar skiptir máli að við getum staðið saman til að þrýsta á um þær breytingar sem við teljum að muni bæta samfélagið og vinna að sameiginlegum skilningi allra aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Við þurfum að bera gæfu til þess að nýta þann mikla samtakamátt sem býr í íslensku launafólki til að bæta samfélagið allt,“ segir hún.
Elín Björg segir allar forsendur til þess að byggja upp gott samfélag. Landið sé ríkt af auðlindum en erfiðlega hafi gengið að skipta gæðunum með sanngjörnum hætti. Þeir sem lægst hafi launin nái ekki endum saman á meðan þeir sem best hafi það séu með mánaðarlaun á við árslaun almenns launfólks.
#metoo-byltingin mun leiða til löngu tímabærra breytinga
Hún nefnir jafnframt í ávarpi sínu að #metoo konurnar hafi skilað skömminni þangað sem hún eigi heima. „Við eigum að hlusta á þær og bregðast við. Það er engin þolinmæði fyrir þessari hegðun lengur og við ætlum að stöðva hana. Ekki á næsta ári, ekki í næstu viku heldur núna, strax.
Við sem sitjum þing BSRB erum mörg hver í lykilstöðu til að ráðast að rótum vandans. Stéttarfélögin og heildarsamtök þeirra eiga að standa vörð um rétt launafólks til að sinna sínu starfi án þess að verða fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi.
Það er mín bjargfasta trú að #metoo byltingin muni leiða til löngu tímabærra breytinga á samfélaginu okkar. Ég hef einnig trú á því að samtök launafólks muni fylgja því fast eftir að svo verði. Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að í framtíðinni þurfi enginn að segja #metoo.“