Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir von á greiningu og tillögum í næsta mánuði um hvernig lækka megi vexti og kostnað í bankakerfinu. Nefnd sem vinnur að hvítbók um fjármálakerfið og stefnumörkun fyrir það til framtíðar, sem Lárus Blöndal hrl. leiðir, mun skila af sér tillögum til stjórnvalda.
Þetta kom fram í fréttum RÚV í kvöld.
Meðal þess sem liggur til grundvallar um skoðunina á þessum efnum, er skýrsla Gylfa Zoega, hagfræðiprófessors, sem hann vann fyrir forsætisráðuneytið. Í henni er farið vítt og breitt yfir stöðu efnahagsmála, og meðal annars vikið að því að nauðsynlegt væri að kanna hagkvæmni í bankakerfinu og hvernig ná fram meiri hagkvæmni fyrir almenning á Íslandi.
Íslenska ríkið er langsamlega umsvifamesti aðilinn á íslenskum fjármálamarkaði. Það á Íslandsbanka að fullu, tæplega 99 prósent hlut í Landsbankanum, Íbúðalánasjóð, LÍN og Byggðastofnun. Samtals er markaðshlutdeild ríkisins í kringum 80 prósent.
Breytingar á bankakerfinu til hagræðingar verða því alltaf með einhverjum hætti á hendi ríkisins. Um mikil verðmæti er að ræða, en samanlagt eigið fé Íslandsbanka og Landsbankans nemur um 450 milljörðum króna.
„Ég held að það sé mjög mikilvægt að við greinum þetta því þetta snýst ekki bara um stýrivexti Seðlabankans eins og stundum er haldið fram heldur líka um vexti viðskiptabankanna og þá þurfum við að skoða þennan kostnað, sem þar liggur á bak við,“ sagði Katrín í samtali við RÚV.