Olíuverð hefur farið hratt hækkandi undanfarin misseri og það veldur vandræðum víða í heiminum, meðal annars á Íslandi. Verðbólguþrýstingur hefur aukist og flugfélög glíma við erfiðari rekstrarskilyrði, svo dæmi sé tekið.
Í nýjustu útgáfu Vísbendingar eru olíumarkaðurinn í heiminum til umfjöllunar. Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur og MBA og sérfræðingur á sviði orkumála, fjallar ítarlega um horfur á olíumarkaði, en olíunotkun er þrátt fyrir allt enn að aukast.
„Um þessar mundir er dagleg olíunotkun mannkyns að ná hinni dramatísku tölu 100 milljónum tunna. Vissulega er aðeins farið að hægja á aukningunni í olíunotkun frá því sem var, en engu að síður er olíuneysla enn að aukast. Og flestir sérfróðir virðast álíta að olíunotkun haldi áfram að aukast næstu árin og áratugina. Eini möguleikinn á því að eftirspurn eftir olíu dragist saman, virðist sá að spár um stórfellda aukningu rafbíla verði að veruleika. Ennþá bendir flest til þess að sú þróun sé það hæg að mannkynið muni áfram auka olíuneyslu sína umtalsvert. Og ekki ná hámarki í olíunotkun sinni fyrr en kannski eftir svona u.þ.b. aldarfjórðung. Sumir spá því þó að hápunkti olíunotkunar verði náð fyrr og það jafnvel strax á næsta áratug.
Olíunotkun í heiminum fer sem sagt ennþá vaxandi og líklegt að svo verði áfram í einhver ár og jafnvel áratugi. Enda fjölgar mannkyninu og hráolía er jú afar mikilvæg sem uppspretta brunaeldsneytis fyrir stóra sem smáa bíla, vinnuvélar, skip og flugvélar og sem hráefni í margskonar iðnaði. Og á sama tíma og dagleg olíuneysla mannkyns er komin yfir sem jafngildir 100 milljónum tunna, er olía enn á ný orðin nokkuð dýr.“
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.